LaBeouf og Hardy brugga landa

Lawless, nýjasta mynd Ástralska leikstjórans John Hillcoat var að fá nýja stiklu. Myndin gerist á bannárunum í Virginiafylki, og fjallar um þrjá bræður sem drýgja tekjur sýnar með því að selja landa. Í hlutverkum bræðranna eru Tom Hardy, Shia LaBeouf og Jason Clarke. Auk þeirra fer Gary Oldman með hlutverk mafíósans sem þeir skipta við,  og Guy Pearce (sem fær sorglega fá hlutverk við sitt hæfi) leikur lögreglumanninn sem eltist við þá. Af stiklunni að dæma munu þeir tveir stela senunni. Í öðrum helstu hlutverkum eru svo gæðaleikarar á borð við Jessica Chastain, Mia Wasikowska og Dane DeHaan.

Myndin byggir á sagnfræðilegri skáldsögu Matt Bondurant, The Wettest County in the World (sem átti upphaflega að verða titill myndarinnar), er hann byggði á sögu afa síns og þriggja bræðra hans. Handritið skrifaði tónlistarmaðurinn geðþekki Nick Cave, en hann og Hillcoat unnu eftirminnilega saman áður við ástralska „vestrann“ The Proposition. Myndin hefur verið lengi í vinnslu, og á tímabili leit út fyrir að ekkert yrði af henni vegna fjármögnunarvandræða. Augljóslega rættist samt úr þeim vanda, og myndin mun keppa um Gullpálmann í Cannes nú í vor. Til gamans má geta þess að þetta er þriðja myndin sem þeir Tom Hardy og Gary Oldman vinna saman að á stuttum tíma, þeir sáust báðir í Tinker Taylor Soldier Spy fyrr á árinu, og munu svo auðvitað birtast í The Dark Knight Rises í sumar.
Fleiri en ég spenntir að sjá Oldman aftur í brjálaða-gangstera-hamnum? Hann er búinn að vera að leika allt of mikið af rólegum löggum upp á síðkastið…