Firmamerki ( lógó ) kvikmyndir.is fékk á dögunum alþjóðleg verðlaun. Merkið er hannað af Stefáni Einarssyni grafískum hönnuði hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, en Stefán hefur unnið ýmis verðlaun í gegnum tíðina, bæði fyrir firmamerki sín sem og aðra hönnun.Kvikmyndir.is merkið var annað tveggja verka eftir Stefán sem verðlaunað var í keppni Graphis, Logo Design 8. Hitt merkið sem var verðlaunað er merki sem Stefán gerði fyrir Krikaskóla, og má sjá á myndinni hér fyrir neðan.
Lógó keppninnar verða gefin út í bók frá Graphis, Graphis Logo Design 8, og verður það í fyrsta sinn sem Stefán á verk í bók frá þeim.
Graphis er alþjóðlegt fagtímarit um sjónræna miðlun (The Best of International Visual Communications) sem hefur verið gefið út frá árinu 1944. Í dag má sjá úrval af efni þeirra á öflugri vefsíðu, graphis.com.
Í frétt á vefsíðu Hvíta hússins segist Stefán ávallt verða glaður þegar hann vinnur til verðlauna, en glottir um leið og hann segist ekki alveg vera með það á hreinu hvað þau séu orðin mörg.
Kvikmyndir.is óskar Stefáni innilega til hamingju með árangurinn, og þakkar honum um leið fyrir flott merki!


