Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson er landsmönnum vel kunnur enda reglulega með mörg járn í eldinum. Nýverið vakti hann mikla athygli fyrir sjónvarpsþættina Ráðherrann auk þess sem honum brá fyrir í gamanmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Hefur hann einnig komið við sögu í þáttunum Cursed, tölvuleiknum Assassins Creed Valhalla og er væntanlegur í sjónvarpsseríunni Vegferð sem og í þriðju þáttaröð Ófærðar.
Þá er Ólafur Darri líka þekktur fyrir að vera einlægur, beinskeyttur og huggulegur persónuleiki. Leikarinn var gestur þáttarins Tveir fellar, í umsjón Óla Guðbjartssonar og Einars Inga Ingvarssonar, og ræddi þar meðal annars Ófærð, græjur, tölvuleiki, foreldrahlutverkið og tilgang lífsins.
Þegar leikarinn er spurður að þessu síðastnefnda svarar hann skýr og einlægur:
„Að gefa af sér til umhverfisins og vonandi skilja eftir lífið aðeins ríkara en þegar maður kom.“
Þá segir leikarinn líka frá lífinu í Bandaríkjunum og reynslu sinni af því að vinna með leikurum og öðru frægu fólki sem hann hefur lengið borið virðingu fyrir.
„Mér finnst það vera mikil blessun að ég hef fengið að vinna með og kynnast mörgum af mínum aðdáunargoðum,“ segir Ólafur Darri og bætir við að frægt fólk sé í flestum tilfellum hið hversdagslegasta fólk og hefur leikarinn góða reynslu af þekktu fólki á borð við Ben Stiller, Adam Sandler og Steven Spielberg.
Þegar hann er spurður út í það hvenær hann hafi síðast orðið „starstruck“ yfir kollega, eða öðrum úr Hollywood-heiminum, þarf Ólafur Darri ekki að hugsa sig tvisvar um: Jennifer Aniston.
Listaverk ofan á annað listaverk
Ólafur Darri fer með lykilhlutverk þáttunum NOS4A2, sem byggðir er á samnefndri bók eftir Joe Hill, en hann er sonur rithöfundarins Stephen King. Ólafur Darri, sem kveðst vera aðdáandi Kings, talar um mistækan feril höfundarins og þau gefandi tilfelli þegar hann hittir í mark. Segist leikarinn vera yfirleitt glaður þegar hann lendir á góðri bók eftir King.
Auk þess að spila tölvuleiki með reglulegu bili – og hafa lengi gert – kveðst Ólafur Darri vera duglegur að lesa.
Þá skiptir leikarinn aðeins um gír og ræðir kvikmyndir sem byggðar eru á bókum, galdurinn að góðri aðlögun og hvernig verk Kings hafa komið út á hvíta tjaldinu.
„Ég hef oft gaman af því að sjá hversu vondar margar kvikmyndir eru. Þær eru örfáar verulega góðar sem byggðar eru á bókunum hans. Hann [King] myndi þó ekki vera sammála okkur með það hverjar eru góðar. Honum finnst The Shining til dæmis mjög léleg, því henni var heilmikið breytt,“ segir Ólafur Darri og heldur áfram:
„Þarna mega menn ekki gleyma öðru; Ef kvikmyndagerðarmaður kaupir bók til að gera hana að bíómynd, þá er hann bara að byggja sitt listaverk ofan á annað listaverk. Bókin hættir ekkert að verða til.
Í raun finnst mér oft vera misskilningur um að kvikmyndagerðarmenn séu að gera bók að bíómynd nákvæmlega eins og bókin var. Í örfáum tilfellum finnst mér það vera eðlilegt,“ segir leikarinn og nefnir Harry Potter myndabálkinn. „Þar fannst mér skýrt að það væri ekkert pláss fyrir auka skáldskap eða auka túlkun á bókunum. Mér fannst æðislega gaman að lesa bækurnar og ég var sáttur með það hvernig tókst til með bíómyndirnar.
En stundum finnst mér menn vera fúlir yfir því að kvikmynd sé öðruvísi en bókin. Það á ekkert að vera þannig að kvikmynd sé eins og bókin. Það á bara að taka ákveðin element og búa til bíómynd úr því, og dæma síðan hvort það heppnist vel eða illa.
The Shining finnst mér vera frábært dæmi um það hvernig einhver mjög fær kvikmyndagerðarmaður tekur bók, fær innblástur úr henni og býr til annað listaverk úr henni. Hann lætur ekkert binda sig við bókina eða það sem höfundurinn vildi.
Og sú mynd er betri en bókin.