Kínversk Skyfall stikla sýnir meira

Þegar Casino Royale var frumsýnd 17. nóvember 2006, og ég sat með nokkrum vinum kl. 14.00 í lúxussalnum í Smáralind, kunni ég myndina nánast utan að. Ég var búinn að þráhorfa á allar mögulegar stiklur (sú fyrsta kom út var með frönsku döbbi – sem ég kann nánast ennþá utanað), þræða vefsíðu myndarinnar, lesa bókina auðvitað, sem og allt sem ég komst í tæri við varðandi gerð myndarinnar.

Þegar ég sat þarna í nánast tómum lúxussalnum (klukkan var náttúrulega 2 á virkum degi) og myndin byrjaði að spilast, fattaði ég að þetta var kannski ekkert besta hugmyndin. Það gæti verið gaman að vita ekki nákvæmlega hvað væri að fara að gerast næst. Þannig að áður en Quantum of Solace kom út tveimur árum síðar prófaði ég að forðast algjörlega allt kynningarefni – lokaði augunum, hélt fyrir eyrun og söng ef stiklan birtist í bíó. Þetta skilaði allt annari upplifun – og ég held að mér hafi fundist myndin  mikið betri en hún var, bara af því að allt var svo óvænt.

Og þessi inngangur leiðir mig að frétt dagsins. Kínversk stikla var að birtast á netinu fyrir Skyfall, og sýnir hún nýtt efni úr myndinni, sérstaklega nýjar hliðar á óþokka myndarinnar, leiknum af Javier Bardem. Ég árið 2006 hefði horft á þetta á repeat í einhverja klukkutíma. Ég árið 2008 hefði ekki opnað þessa frétt. Árið 2012… held ég að gullni meðalvegurinn sé fundinn, ég opnaði þetta og horfði einu sinni á. Fyrir forvitna lesendur er hér tækifæri til að sjá aðeins meira úr Skyfall, eins oft og hverjum og einum hentar.

Ég var farinn að sakna Bond. 26. október verður góður dagur!

Ps. rétt upp hönd sem finnst Skyfall „one-sheet“ plakatið ótrúlega ljótt…