Jóhannes og Álfrún með hlutverk í „spin-off“ af Vikings

Afleggjari (e.  af Vikings í aðsigi

Jóhannes Haukur Jóhannesson og Álfrún Laufeyjardóttir eru á meðal leikenda í spennuþáttunum Vikings: Valhalla. Tökur hófust á Írlandi fyrr í vetur og er um að ræða afleggjara (e. spin-off) af hinni margverðlaunuðu þáttaröð Vikings.

Í þáttaröðinni stórvinsælu er fjallað um víkinginn Ragnar Loðbrók, félaga hans og fjölskyldu. Þættirnir koma úr smiðju virta höfundarins Michael Hirst og stendur hann einnig á bak við nýju seríuna.

Vikings: Valhalla gerist um hundrað árum eftir atburði hinna þáttanna og er að þessu sinni fjallað um Leif Eiríksson, Freydísi Eiríksdóttur, Vilhjálm 1. Englandskonung og Harald harðráða. Fram kemur á vef IMDb að Jóhannes fari með hlutverk Haralds og er það eitt af stærri rullum seríunnar.

Með önnur hlutverk í þáttaröðinni fara Kenneth Christensen, Frida Gustavsson og David Oakes. Hermt er að Jóhannes komi fram tíu þáttum að minnsta kosti (af tuttugu-og-fjórum talsins) og bregður Álfrúnu fyrir í átta.

Á meðal leikstjóra sem koma að Vikings: Valhalla eru Steve Saint (sem hefur áður leikstýrt fjölda Vikings-þátta), Katheryn Winnick (sem hefur bæði leikstýrt áður þáttum seríunnar og farið með hlutverk Hlaðgerðar Loðbrókar) og BAFTA-verðlunahafinn Niels Arden Oplev, sem er hvað þekktastur fyrir kvikmyndina Karlar sem hata konur frá 2009.

Þættirnir verða sýndir á Netflix á næsta ári.

Hér að neðan má sjá kollegana Jóhannes og Kenneth (sem margir þekkja úr Borgen og The Last Kingdom) í góðu stuði á Írlandi, en myndina birti Jóhannes á Instagram-síðu sinni í október síðastliðnum.