Hverjir vinna og hverjir ættu að vinna Óskar í kvöld?

Óskarsverðlaunin verða afhent í nótt að íslenskum tíma, og þá er ekki úr vegi að spá örlítið í spilin, með hjálp frá bandaríska vefmiðlinum USA Today, en þar á bæ tóku menn saman lista yfir þá sem munu líklegast vinna, og þá sem ættu að vinna Óskarinn í helstu verðlaunaflokkum.

Engin ein kvikmynd hefur tekið forystu að segja má í aðdraganda verðlaunanna, en teningunum verður kastað í kvöld/nótt.

Verðlaunin verða nú veitt í 91. skipti, og margt gæti komið á óvart, eða ekki …

Besta kvikmynd

“Black Panther“
“BlacKkKlansman“
“Bohemian Rhapsody”
“The Favourite”
“Green Book”
“Roma”
„A Star Is Born”
“Vice”

Mun vinna: „Roma“

Ætti að vinna: „Black Panther“

Eins og segir í USA Today þá er Roma líklega sú sem er öruggast að veðja á að fái styttuna í kvöld, en vefurinn segir að Black Panther ætti að fá verðlaunin, enda sé myndin frábærlega gerð tæknilega, vel leikin, og marki tímamót.

Leikari

Christian Bale, “Vice”
Bradley Cooper, “A Star Is Born”
Rami Malek, “Bohemian Rhapsody”
Viggo Mortensen, “Green Book”
Willem Dafoe, “At Eternity’s Gate”

Mun vinna: Malek

Ætti að vinna: Bale

Frammistaða Malek í hlutverki Freedie Mercury söngvara Queen í Bohemian Rhapsody hefur heillað fólk um allan heim, en USA Today segir að Christian Bale í hlutverki Dick Cheney í Vice sé jafn frábær og Óskarsverðlaunaleikur Gary Oldman í hlutverki Winston Churchill í fyrra, í myndinni Darkest Hour.

Leikkona

Yalitza Aparicio, “Roma” 
Glenn Close, “The Wife”
Olivia Colman, “The Favourite”
Lady Gaga, “A Star Is Born”
Melissa McCarthy, “Can You Ever Forgive Me?”

Mun vinna: Close

Ætti að vinna: Gaga

Close stendur sig vel. Hún hefur verið sjö sinnum tilnefnd til Óskars en aldrei fengið, og því verður hún líklega verðlaunuð fyrir öll hin hlutverkin í leiðinni. Gaga sýnd mikla innlifun og góðan leik í A Star is Born og á styttuna skilið.

Meðleikari

Mahershala Ali, “Green Book”
Adam Driver, “BlacKkKlansman”
Sam Elliott, “A Star Is Born”
Richard E. Grant, “Can You Ever Forgive Me?”
Sam Rockwell, “Vice”

Mun vinna / Ætti að vinna: Ali

Hér er hörð samkeppni. Elliot er góður í A Star Is Born, Grant er bráðskemmtilegur í Can you Ever Forgive me, og Rockwell er magnaður í Vice sem George W. Bush. En Ali mun fá Óskar númer tvö í kvöld, enda leikur hann hlutverkið af mikilli næmni.

Meðleikkona

Amy Adams, “Vice”
Marina de Tavira, “Roma”
Regina King, “If Beale Street Could Talk”
Emma Stone, “The Favourite”
Rachel Weisz, “The Favourite”

Mun vinna: King

Ætti að vinna: Weisz

Hin sex sinnum tilnefnda Amy Adams verður að bíða enn um sinn því nú er komið að King að taka heim styttuna fyrir afbragðs leik í hlutverki móður sem berst fyrir því að kærasti dóttur hennar losni úr fangelsi. Weisz sýnir glæsilega frammistöðu í The Favourite og ætti að fá gullnu styttuna.

Leikstjóri

Alfonso Cuaron, “Roma”
Yorgos Lanthimos, “The Favourite”
Spike Lee, “BlacKkKlansman”
Adam McKay, “Vice”
Pawel Pawlikowski, “Cold War”

Mun vinna: Cuaron

Ætti að vinna: Lee

Roma er hjartnæm saga og persónuleg, og áhrifamikið verk. Hún mun líklega tryggja Cuaron annan Óskar sinn fyrir leikstjórn. En það er samt eitthvað sem segir að Lee, sem nú er tilnefndur í fyrsta skipti fyrir leikstjórn, eigi að vinna verðlaunin, enda myndin BlacKkKlansman stórkostleg í alla staði. Rétt eins og raunin er með Close hér á undan, þá á Lee skilið að fá verðlaunin fyrir öll sín góðu verk önnur, sem gengið hefur verið framhjá honum með.