Líklegast engin Óskarsverðlaun á næsta ári

Öruggt er að fullyrða að kvikmyndaiðnaðurinn eins og hann leggur sig, líkt og flestar starfsgreinar, hafi orðið fyrir talsverðu áfalli vegna kórónuveirunnar. Bæði hefur gífurlegum fjölda kvikmynda verið frestað og er ekki hægt að standa í fjöl­mennum tökum um þessar mundir. Einnig er víða deilt um hvort flest kvikmyndahús megi við þeim tekjumissi sem upp hefur komið á þessu ári.

Sjá einnig: Skorað á Christopher Nolan til að fresta Tenet

Skiljanlega hafa margir innan og utan kvikmyndabransans velt því fyrir sér hvað verður um Óskarsverðlaunin á næsta ári. Þegar upp er staðið er úrval kvikmynda frá árinu 2020 af skornum skammti að megninu til og munu margar stórmyndir þessa árs og veturs ekki líta dagsins ljós fyrr en 2021 að öllu óbreyttu.

Nýverið var greint frá því í fréttamiðlunum The Sun og Variety að skipuleggjendur Óskars­verð­launanna hafi staðið í ströngum viðræðum um hvort hægt sé að fresta verð­launa­af­hendingunni vegna lítils framboðs. Kom einnig upp sú hugmynd að færa hátíðina um fjóra mánuði en nú vill Variety meina að árið 2021 gæti orðið Óskarslausa árið, hið fyrsta í háa herrans tíð.

Fyrstu Óskarsverðlaunin voru veitt árið 1927 og hófust beinar sjónvarpsútsendingar frá athöfninni árið 1953. Hátíðin hefur haldið reglulegu flugi síðan þá. Næsta hátíð ætti að verða sú 93. í röðinni.

Má segja að Óskarinn sem fór fram í febrúar síðastliðinn hafi verið á vörum flestra hér á landi, meira en jafnvel nokkru sinni fyrr, en Hildur Guðnadóttir varð þá fyrst Íslendinga til að hreppa gullstyttuna fyrir hina stórvinsælu Joker. Þegar stórleikkonan Sigourney Weaver tilkynnti nafnið fékk Hildur standandi lófaklapp frá ýmsum goðsögnum í kvikmyndabransanum. Sagði svo Hildur í þakkarræðu sinni að verðlaunin væru tileinkuð konum víða um heim og hvatti hún þær til að láta ljós sitt skína.