Hrottalegir víkingar á Íslandi

Í fyrrahaust var greint frá því að bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Eggers væri með hefndarsögu í bígerð sem nefnist The Northman. Um er þar að ræða víkingamynd sem gerð er eftir handriti sem Eggers skrifaði í samvinnu við rithöfundinn Sigurjón Birgi Sigurðsson, betur þekktan sem Sjón.

Saga myndarinnar gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar en heimildir herma að hún verði tekin upp að stórum hluta í Kanada, en Eggers notaðist mikið við landið við tökur á fyrri verkum sínum, sem eru kvikmyndirnar The Witch og The Lighthouse. Báðar kvikmyndir leikstjórans hafa hlotið nær einróma lof gagnrýnenda og vakið athygli víða um heim.

Robert Eggers við tökur á The Lighthouse.

Óvenjulega ofbeldisfull

Kvikmyndavefurinn Screen Daily átti spjall við kvikmyndatökumann myndarinnar, Jarin Blaschke, sem hlaut nýverið Óskarstilnefningu fyrir The Lighthouse. Blaschke fullyrðir að umfangið á The Northman sé umtalsvert stærra heldur en í síðustu myndum Eggers og mega áhorfendur búast við hrottalegri mynd, vægast sagt, sem einnig verður að miklum hluta tekin upp á Írlandi.

Blaschke segir:
„Þessi víkingamynd sem við gerum að gera núna í Evrópu verður myrk og óvenjulega ofbeldisfull. Ég held að Eggers stefni að eins konar þríleik,“ segir hann og gefur í skyn að verði mikil þematenging á milli þeirra þriggja kvikmynda sem leikstjórinn hefur komið að, enn sem komið er.

Anya Taylor-Joy fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Witch.

The Northman skartar ýmsum þekktum andlitum og má búast við þeim Nicole Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe ásamt bræðrunum Bill og Alexander Skarsgård. Myndin segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.

Ekki er komin dagsetning á víkingamyndina en gera má fastlega ráð fyrir því að hún verði frumsýnd á næsta ári.