Þrátt fyrir að sumir séu orðnir þreyttir á ofurhetjumyndum og telji þær vera orðnar of margar er leikstjórinn Quentin Tarantino ekki einn af þeim.
„Ég hef lesið myndasögur síðan ég var krakki og ég var með Marvel-heiminn á heilanum í mörg ár,“ sagði Tarantino í viðtali við New York Magazine.
„Þannig að ég hef ekkert út ofurhetjumyndirnar að setja, nema hvað að ég vildi óska þess að ég hefði ekki þurft að bíða til sextugsaldurs eftir því að þær yrðu vinsælasta kvikmyndategundin,“ sagði hann. „Á níunda áratugnum, þegar kvikmyndir voru ömurlegar, sá ég fleiri myndir en ég hafði nokkru sinni séð og framleiðslan í Hollywood var sú lélegasta síðan á sjötta áratugnum. Þannig að þetta hefði verið skemmtilegur tími.“
Nýjasta mynd Tarantino, vestrinn The Hateful Eight, kemur í bíó um næstu áramót. Hann segir að Jennifer Lawrence hefði vel getað leikið hlutverkið sem Jennifer Jason Leigh fékk. „Ég er mikill aðdáandi hennar. Hún gæti orðið næsta Bette Davis ef hún heldur áfram á þessari braut,“ sagði Tarantino í öðru viðtali við Vulture.
Þar sagðist hann einnig ekki vera hrifinn af því hvernig Wes Craven leikstýrði hryllingsmyndinni Scream og fannst honum Craven hafi komið í veg fyrir að hún næði almennilegu flugi.
„Ég hefði alveg verið til í að leikstýra fyrstu Scream-myndinni. „Weinstein-bræðurnir voru að reyna að fá Robert Rodriques til að leikstýra henni. Ég held að þeir hafi ekki einu sinni pælt í því hvort ég hefði áhuga.“