Hjartasteinn fékk Queer Lion verðlaunin

Hjartasteinn, fyrsta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, vann til Queer Lion verðlauna Feneyja kvikmyndahátíðarinnar í gærkvöldi. Queer Lion verðlaunin eru veitt framúrskarandi mynd sem tekur fyrir þemu sem tengjast lesbíum, hommum, tvíkynhneigðum, transfólki og/eða hinsegin fólki (LGBTQ).

hjartastguðm

 

Um ástæðu valsins sagði dómnefndin að hún hafi veitt Hjartasteini verðlaunin „vegna einstakrar næmni þegar kemur að því að sýna þroskasögu tveggja ungra vina og greiningu á því að gangast við samkynhneigð sinni. Einnig vegna sterkrar og sannfærandi framsetningar á þeirri innri baráttu sem sundrar og sameinar svo aðalpersónurnar tvær, þar sem náttúran í bakgrunni er jafn mikilfengleg og hún getur verið grimmileg.“

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina.

Tökur fóru fram haustið 2015 í Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Vopnafirði og Dyrhólaey.

Með helstu hlutverk fara ungstirnin Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Daníel Hans Erlendsson, Theodór Pálsson og Sveinn Sigurbjörnsson ásamt þeim þaulreyndu Nínu Dögg Filippusdóttur, Sveini Ólafi Gunnarssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Søren Malling og Gunnari Jónssyni.