Íslensk mynd um kynleiðréttingu fær verðlaun í Lübeck

Hrafnhildur – heimildarmynd um kynleiðréttingu eftir Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í heimildamyndaflokki á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck um nýliðna helgi. Yfir 160 myndir voru sýndar á hátíðinni, þar á meðal 8 íslenskar, og var Hrafnhildur eina íslenska myndin sem hlaut verðlaun á hátíðinni.

hrafnhildur

Í Hrafnhildi er fylgst með titilpersónunni leiðrétta kyn sitt. Rætt er við nánustu aðstandendur hennar sem og geð- og lýtalækna. Rýnt er í kynleiðréttingarferlið, fordóma samfélagsins, væntingar Hrafnhildar til lífsins og breytta þjóðfélagslega stöðu hennar eftir aðgerð.

Hrafnhildur var valin heimildamynd ársins á Edduverðlaununum í ár. Á þessu ári hefur myndin einnig tekið þátt á kvikmyndahátíðinni í Gimli í Kanada og Nordisk Panorama í Malmö í Svíþjóð.