Hjartasteinn fyrst til Feneyja

Ný íslensk kvikmynd, Hjartasteinn, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, hefur verið valin í Venice Days flokk kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum sem hefst  31. ágúst nk. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd er valin til keppni á hátíðinni.

Hjartasteinn-

Aðeins tólf kvikmyndir eru valdar til keppni í þessum flokki, en valið er úr þúsundum mynda alls staðar að úr heiminum.

Hjartasteinn á sér stað yfir sumartíma í litlu sjávarþorpi á Austfjörðum og fjallar myndin um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina og tilfinningar sem fylgja því að þroskast og verða að manni. Tökur fóru fram í fyrrasumar á Borgarfirði eystri.

hjartasteinn leikarar

„Þetta er alveg magnað, þetta er í raun og veru algjör draumabyrjun fyrir okkur – við erum búin að vinna lengi í myndinni og því er þetta alveg frábært,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið, en Hjartasteinn er hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Áður hefur hann gert stuttmyndina Hvalfjörður.

guðmundur arnar á tökustað

Leikstjórinn á tökustað með aðalleikurum myndarinnar.

Með helstu hlutverk fara, eins og segir í tilkynningu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, ungstirnin Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Daniel Hans Erlendsson, Theodór Pálsson og Sveinn Sigurbjörnsson ásamt þeim þaulreyndu Nínu Dögg Filippusdóttur, Sveini Ólafi Gunnarssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Søren Malling og Gunnari Jónssyni.