Hjartasteinn vinnur EUFA verðlaunin

Hjartasteinn, hin margverðlaunaða kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, vann í kvöld til EUFA verðlaunanna, European University Film Award. EUFA verðlaunin eru á vegum Evrópsku Kvikmyndaakademíunnar, Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg og Kvikmyndaverðlauna Quebec Háskóla, í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Verðlaunin verða afhent í Berlín þann 8. desember næstkomandi, þar sem Guðmundur Arnar leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar verður viðstaddur verðlaunaafhendinguna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Af þeim 66 kvikmyndum sem voru í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru fimm þeirra tilnefndar til EUFA verðlaunanna í ár. Þeirra á meðal eru finnska kvikmyndin The Other Side of Hope eftir Aki Kaurismäki og rússneska kvikmyndin Loveless eftir Andrei Zvyagintsev – sem eru báðar tilnefndar í nokkrum flokkum fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, þar á meðal fyrir bestu kvikmynd og besta leikstjóra.

Myndirnar fimm voru sýndar og ræddar í 20 háskólum í 20 Evrópulöndum og í kjölfarið komst hver skóli að niðurstöðu um hver væri besta myndin að þeirra mati.

Þetta er annað árið sem EUFA verðlaunin fara fram. Í fyrra vann hin margverðlaunaða kvikmynd Ken Loach, I, Daniel Blake, til verðlaunanna.

Nýverið vann Hjartasteinn til sex alþjóðlegra verðlauna. Myndin var valin besta LGBT kvikmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cape Town í Suður Afríku, vann áhorfendaverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ljubljana í Slóveníu, vann dómnefndarverðlaun á Chéries-Chéris kvikmyndahátíðinni í Frakklandi og var valin besta myndin á Cinedays – hátíð evrópskra kvikmynda í Skopje í Makedóníu. Auk þess vann hún áhorfendaverðlaun og dómnefndarverðlaun ungmenna á Du grain à démoudre kvikmyndahátíðinni í Frakklandi.

Myndin hefur því unnið til alls 45 alþjóðlegra verðlauna, auk þess að vinna til níu Edduverðlauna í febrúar síðastliðnum.