Hart í föðurhlutverkinu

Næsta hlutverk gamanleikarans knáa Kevin Hart, verður í mynd sem byggist á sönnum atburðum, um mann sem missir konu sína stuttu eftir að hún fæðir barn þeirra, og hann þarf því að ala dóttur þeirra upp, upp á sitt einsdæmi.

Hart er einn vinsælasti leikarinn í Hollywood og er með ýmis verkefni á dagskránni, þar á meðal leikna mynd byggða á Monopoly spilinu, eða Matador.

Um leið og Hart hefur lokið leik sínum í framhaldi Sony kvikmyndarinnar Jumanji: Welcome to the Jungle, þá mun hann, samkvæmt The Hollywood Reporter, vinna að kvikmyndinni Föðurhlutverk, eða Fatherhood, fyrir Sony einnig. Leikstjóri verður About a Boy leikstjórinn Paul Weitz.

Eins og fyrr sagði er myndin byggð á sönnum atburðum, sem fjallað er um í bók Matt Logelin „Two Kisses For Maddy: A Memoir of Loss & Love“. Dana Stevens ( Safe Haven )  skrifar handritið.

„Þegar ég byrjaði að lesa handritið þá snerti það mig djúpt, og mér vöknaði um augu,“ sagði Hart.