Harrelson í Seven Psychopaths

Írski leikstjórinn Martin McDonagh, sem gerði hina frábæru In Bruges fyrir nokkrum árum, er loksins að fara af stað með sína aðra kvikmynd í fullri lengd, og ber hún nafnið Seven Psychopaths . Ekki verður vikið of langt frá því sem virkaði í fyrri mynd hans, en myndinni er lýst sem blóðugri, kolsvartri gamanmynd með völdum manni í hverju rými. Myndin fjallar um upprennandi handritshöfund, Marty (Colin Farrel), sem á í erfiðleikum með að klára handrit sitt, Seven Psychopaths, og vantar innblástur og fókus í skriftirnar. Billy (Sam Rockwell) besti vinur hans, er atvinnulaus leikari og hundaþjófur í hlutastarfi, og vill allt gera til að hjálpa Marty. Hans (Christopher Walken) er glæpafélagi Billy, trúaður maður með truflaða fortíð. Þeir stela svo heittelskuðum hundi frá geðsjúkum gangster að nafni Charlie, sem svífst einskis til að fá kvikindið aftur og ná hefndum.

Nokkur styr hefur staðið um síðastnefnda hlutverkið, hundaeigandann geðþekka, Charlie. Mickey Rourke var orðaður við hlutverkið, og jafnvel bárust þær fréttir að hann hefði afþakkað hlutverk í The Expendables 2, til þess að hún myndi ekki trufla tökur á þessari mynd. Rourke gengur nú á milli viðtala vegna myndarinnar Immortals sem kemur út í mánuðinum, og nú virðist honum heldur betur hafa snúist hugur. Hann staðfesti að hann yrði ekki í myndinni með þessum orðum: „Leikstjórinn var asni. Hann vildi fá allt fyrir ekkert. Hann getur farið að leika sér“. Þetta eru reyndar ekki fyrstu ummæli Rourke í þessum pressutúr sem vekja athygli, en hann hefur einnig verið duglegur að lýsa því yfir hversu svekktur hann var með Iron Man II, hlutverk sem hann hafi lagt gríðarmikla vinnu í, en að mestu leiti endað á klippigólfinu.

En við sem höfum meiri áhuga á því hvað McDonagh gerir næst heldur en Rourke, þurfum ekki að örvænta. Í hlutverk Charlie hefur stigið ekki síðri leikari, Woody Harrelson. Hann ætti að fara létt með það, og ef In Bruges er einhvers viti, þá ætti McDonagh að gera það líka. Ásamt því berast fréttir að Olga Kurylenko og Tom Waits séu staðfest í hlutverk, þó ekki sé vitað hve stór þau verði. Þessi er kominn hátt á lista hjá mér yfir væntanlegar myndir.