Fyrstu myndirnar úr Seven Psychopaths

Fyrstu myndirnar úr Seven Psychopaths voru að detta á netið. Þessi mynd hefur ekki farið svo hátt hingað til, en er að mati undirritaðs ein af þeim mest lofandi sem nú eru í vinnslu. Það mat byggi ég á fyrri mynd leikstjórans og handritshöfundarins Martin McDonagh (In Bruges), sem var algjörlega frábær, sem og fyrnasterkum leikhópinum sem samanstendur af Colin Farrel, Sam Rockwell, Woody Harrelson og Christopher Walken (þetta gæti verið listi yfir skemmtilegust leikarana starfandi í dag!). Svo eru Gabourey SidibeOlga Kurylenko, Abbie Cornish og Tom Waits í smærri hlutverkum.

Myndinni er lýst sem blóðugri, kolsvartri gamanmynd og fjallar um upprennandi handritshöfund, Marty (Colin Farrel), sem á í erfiðleikum með að klára handrit sitt, Seven Psychopaths, og vantar innblástur og fókus í skriftirnar. Billy (Sam Rockwell) besti vinur hans, er atvinnulaus leikari og hundaþjófur í hlutastarfi, og vill allt gera til að hjálpa Marty. Hans (Christopher Walken) er glæpafélagi Billy, trúaður maður með truflaða fortíð. Þeir stela svo heittelskuðum hundi frá geðsjúkum gangster að nafni Charlie (Woody Harrelson), sem svífst einskis til að fá kvikindið aftur og ná hefndum.

Nóg tal, hér eru myndirnar. Hvernig leggst þetta í menn?