Harrelson og Hardy saman í Venom

Leikarinn góðkunni Woody Harrelson mun leika á móti Tom Hardy í ofurhetjumyndinni Venom sem er væntanleg á næsta ári. Harrelson bætist þar með í hóp leikara á borð við Riz Ahmed, Michelle Williams og Reid Scott.

Myndin er framleidd af Sony í samstarfi við Marvel kvikmyndaverið. Leikstjórn er í höndum Ruben Fleischer, en hann er hvað þekktastur fyrir að leikstýra uppvakningamyndinni Zombieland þar sem Harrelson fór einnig með eitt af aðalhlutverkunum.

Persóna Harrelson í myndinni liggur ekki fyrir að svo stöddu en því er haldið fram að hann muni fara með hlutverk undirmanns erkiþorparans Venom, en það er Hardy sem fer með titilhlutverkið.

Harrelson hefur átt annríkt undanfarið og var hann t.a.m. að ljúka tökum á Solo: A Star Wars Story og síðan sást hann í War for the Planet of the Apes fyrr á árinu. Leikarinn fer einnig með hlutverk í Three Billboards Outside Ebbing, Missouri sem hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna á þessu ári.

Venom birtist fyrst í teiknimyndasögum sem hálfgert yfirtökusjálf Köngulóarmannsins. Þetta gerðist fyrst í 252. hefti The Amazing Spider Man frá árinu 1984. Nokkrum árum síðar fór þessi vera úr Peter Parker, og yfir í ljósmyndarann Eddie Brock, og úr varð andhetjan Venom. Persónan birtist síðast á hvíta tjaldinu í túlkun Topher Grace í Spider-Man 3, sem Sam Raimi leikstýrði árið 2007.

Stefnt er að frumsýningu Venom þann 5. október á næsta ári.