Halloween Kills mun stuða fólk

Jamie Lee Curtis, aðalleikkona hrollvekjunnar Halloween Kills, sem kemur í bíó í næstu viku, segir að kvikmyndin muni stuða fólk og gera áhorfendur órólega.

Myndin heldur áfram þar sem frá var horfið í Halloween frá 2018 en sú mynd var beint framhald hinnar goðsagnakenndu fyrstu myndar eftir John Carpenter frá árinu 1978.

Michael Myers hinn grímuklæddi raðmorðingi.

Í Halloween Kills snýr Curtis aftur í hlutverki Laurie Strode sem rétt eina ferðina þarf að takast á við hinn grímuklædda Michael Myers.

Auk þessarar þriggja mynda sem taldar eru upp hér að framan hafa verið gerðar ótal Halloween myndir þar sem margvíslegar persónur hafa komið við sögu.

En eins og fyrr sagði þá hafa síðustu myndirnar í leikstjórn David Gordon Green tengst upprunalegu myndinni, en Myers snýr þar aftur til bæjarins Haddonfield 40 árum eftir að á hann rann morðæði, með þeim afleiðingum að Laurie Strode fékk mikið áfall.

Halloween frá 2018 endaði á því að Laurie hafði króað Myers af ofaní kjallara í brennandi húsi og vonaði að þar með væri líf hans á enda, og hryllingurinn sömuleiðis. En í Halloween Kills, eins og sjá má í stiklu myndarinnar, sleppur Myers úr eldinum og heldur áfram að valda usla í bænum.

Hér fyrir neðan má sjá stutt myndband um gerð kvikmyndarinnar en Jamie Lee Curtis og aðrir leikarar tala þar um hvernig það var að mæta aftur til leiks í seríuna.