Gordon-Levitt í Dark Knight Rises?

Orðrómar um leikaraval í The Dark Knight Rises eru að skjóta upp höfðinu hvert sem maður lítur þessa dagana, en nú er það Joseph Gordon-Levitt sem er sagður líklegur til að hreppa hlutverk.

Gordon-Levitt, sem lék í Inception, hefur lengi verið í uppáhaldi hjá aðdáendum Batman myndanna og hafa margir vonað að hann fái hlutverk í þeirri þriðju. En nú fyrst hefur vefsíðan Deadline sagt frá því að leikarinn hafi átt fundi með leikstjóranum Christopher Nolan þess efnis að birtast í The Dark Knight Rises.

Deadline hefur getið sér nafn fyrir það að vera fyrstir með fréttirnar og sjaldan haft rangt fyrir sér þegar kemur að leikaravali, eins og sjá mátti þegar Henry Cavill var ráðinn í hlutverk Superman nú fyrir stuttu. Sjálfir segjast þeir ekki vita hvaða hlutverki Gordon-Levitt sækist eftir, en nú nýlega staðfesti Nolan að sameiginlegur Inception-vinur þeirra Tom Hardy myndi leika Bane og Anne Hathaway færi með hlutverk Selinu Kyle.

– Bjarki Dagur