Geena í glímu

The Long Kiss Goodnight leikkonan Geena Davis hefur gengið til liðs við Netflix þáttaröðina Glow, en þriðja þáttaröð verður frumsýnd þann 9. ágúst næstkomandi.

Geena Davis í læknasloppnum í Grey´s Anatomy.

Í þáttunum fylgjumst við með hinum „stórglæsilegu konum í fjölbragðaglímu“ ( Gorgeous Ladies of Wrestling – GLOW ), en Davis mun leika hlutverk Sandy Devereaux St. Clair, sem er skemmtanastjóri á Fan-Tan hótelinu og spilavítinu í Las Vegas.

Þáttaröðin samanstendur af 10 þáttum, og mun segja frá GLOW fjölbragðaglímukonunum þegar þær eru orðnar aðalnúmerið á Fan-Tan í Vegas. Konurnar átta sig fljótlega á því að það að vera í Las Vegas er allt annað en eintómur glamúr. Eftir því sem tíminn líður áfram, þá verða mörkin óskýrari á milli frammistöðunnar í glímuhringnum og raunveruleikans, og stelpurnar glíma við eigin sjálfsvitund, innan sem utan hringsins.

GLOW þættirnir eru skálduð saga og fjalla um Ruth Wilder, sem Alison Brie leikur, atvinnulausa leikkonu á níunda áratug síðustu aldar í Los Angeles. Hún fær tækifæri til að slá í gegn þegar hún kynnist glys – spandex heimi fjölbragðaglímu kvenna. Auk þess að vinna þar með 12 ólíkum einstaklingum úr Hollywood, þá þarf hún að keppa við Debbie Eagan, fyrrum sápuóperuleikkonu, sem hætti í bransanum vegna barneigna, en þarf að byrja aftur að vinna þegar lífið sem hún hélt að væri orðið svo frábært og fullkomið, reynist ekki vera það lengur.

Við stjórnvölinn hjá GLOW er Sam Sylvia, sem Marc Maron leikur, útbrunninn B-mynda leikstjóri sem núna þarf að ná því sem hann getur út úr þessum konum, og gera úr þeim glímudrottningar.

Ekkert hefur verið tilkynnt um frekari ráðningar í þáttaröðina nýju, en leikkonur síðustu þáttaraðar, þær Alison Brie, Marc Maron, Betty Gilpin, Kate Nash, Chris Lowell og fleiri munu snúa aftur.

Kíktu á stikluna fyrir þáttaröðina hér fyrir neðan: