Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Dawn of the Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir vinsældir 28 Days Later (2002) sem fjallaði um veiru sem gekk á milli fólks með blóði og snéri því í blóðþyrsta brjálæðinga, gaf Universal grænt ljós á að endurgera Dawn of The Dead (1978) eftir George A. Romero.


Zombie myndir náðu miklum vinsældum um 1980 stuttu eftir útgáfu Dawn of The Dead sem oftar en ekki hefur verið talin sú besta í þeim flokki. Zombie myndir ganga út á það að veira dreifir sér með biti, sem veldur því að þeir sem sýkjast deyja og lifna svo við, ráfandi um eftir fleiri fórnarlömbum. Þar sem við erum komin í MTV öldina þá gengur ekki lengur að láta afturgöngurnar ráfa um heldur erum við komin hér með afturgöngur sem stökkva, hlaupa, hjóla, syngja og þar fram eftir götunum. Allt þetta er svosem gott og blessað ef það er það sem til þarf til að halda athygli bíógesta nú til dags, svo ekki sé minnst á svokölluð bregðuatriði með nokkura mínútna millibili.


Í Dawn of The Dead kynnumst við Ana sem er hjúkrunarkona sem lifir að því virðist góðu lífi með kærasta sínum í vinalegu úthverfi. Einn daginn snýst allt við þegar veira breiðist út sem vekur upp dauða og snýr þeim í blóðþyrst skrímsli. Ana sleppur naumlega að heiman og rekst á fleiri sem komust af og koma þau sér fyrir í verslunarmiðstöð en margir ófyrirséðir atburðir gera þeim lífið leitt.


George A. Romero, leikstjóri og handritshöfundur upprunarlegu myndarinnar hafði tilgang með myndinni sinni. Í Dawn of The Dead (1978) sjáum við neytendasamfélagið í hnotskurn, afturgöngurnar ráma enn um verslunarmiðstöðina af því er virðist gömlum vana, þ.e. það sem það gerði í lifanda lífi. Fólkið sem lifir af getur lifað góðu lífi í verslunarmiðstöðinni því þar er allt sem það dreymir um, afþreyingu og mat.

Þessu er því miður sleppt af einhverri ástæðu í endurgerðinni þar sem verslunarmiðstöðin er bara hentugur staður að til að fela sig þangað til hjálp berst. Það olli mér miklum vonbrigðum að þessum mikilvæga hlut hafi verið kastað út um gluggan því þetta var nú einusinni það sem gerði Dawn of The Dead að því sem hún var.


Það væri hræsni að segja að Dawn of The Dead væri ekki vel gerð eins og er með allar Hollywood myndir. Förðunin er frábær og leikstjórnin er eins og búast má við. Það sem hrjáir myndina í alla staði er handritið. Við erum með of mikið af persónum sem eru einungis ætlaðar til að verða afturgöngunum að bráð fyrr eða síðar og veldur þetta því að vegna fjölda persóna er erfitt að kynnast einum né neinum.

Zombie breytingin, þ.e. að hafa þá ólympíuhlaupara sem geta rifið niður hurðir og hvað eina í stað gömlu góðu ráfandi hægu afturgöngunar kemur illa niður á myndinni. Auðvitað fáum við mikið af bregðuatriðum og spennandi árásum en vegna þess hve hættulegar þessar afturgöngur eru fáum við að sjá voðalega lítið af þeim miðað við venjulega zombie mynd.


Klippingin er agaleg, eins og vill oft vera með nýlegar hryllingsmyndir, þá er myndavélin á fullu og klippt úr einu yfir í annað, án þess að maður fái tíma til að anda. Þetta veldur því að maður má ekki blikka augunum af hræðslu um það að missa af einhverju og jafnvel þrátt fyrir það er erfitt að átta sig á hvað er í gangi.


Zack Snyder er nýkomin úr heimi tónlistarmyndbanda, eins og virðist vera vinsælt með að setja slíka nýgræðinga undir stýrið á svona myndum. Miðað við það sem við sjáum og sjáum ekki, ætti maðurinn að halda sig við tónlistarmyndböndin þar sem ég hefði betur skemmt mér hefði þetta verið klippt niður í fimm mínútna tónlistarmyndband.


Myndin verður langdregin á köflum og jafnvel hlægilega bjánaleg. Sumar pælingarnar í sögunni eru gjörsamlega út í hött og mörg einfaldlega misheppnuð, eins og myndin í heild sinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Texas Chainsaw Massacre
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn heldur endurgerðaræðið áfram í Hollywood, í þetta skipti var ákveðið að slátra Bandarískri mynd í stað þess að stela hugmyndum frá öðrum löndum. En hvernig er hægt að bæta myndir sem eru nánast fullkomnar? Ég hef alltaf álitið að endurgerð væri eitthvað sem ætlað væri til að bæta forverann. Þetta tókst vel í nokkrum tilfellum, t.d. The Fly sem Cronenberg endurgerði árið 1986 og svo má einnig minnast á The Thing sem Carpenter gerði 1982. Þessar endurgerðir mega eiga það að þær gerðu þó það sem þeim var ætlað, s.s. að gera gott úr annars fremur slöppum myndum. Núna upp á síðkastið hafa vitleysingarnir í Hollywood verið að ná sér í peninga á sem auðveldasta máta, þ.e. að endurgera myndir sem þarf engan veginn að endurgera. Dæmi um þetta er The Ring(2002) og The Haunting(1999), þessar endurgerðir bættu ekki um betur hvað upprunalegu myndirnar varðar, heldur hæddust að þeim.


The Texas Chainsaw Massacre segir frá fimm ungmennum á leið sinni í gegnum Texasfylki, þegar þau rekast á unga konu, alblóðuga, vafrandi á miðjum þjóðvegi. Krakkarnir sem eru flestir prýðilega viðkunnarlegir (þó maður sjái strax hverjir munu deyja í myndini og hverjir ekki), taka veslings konuna uppí og ætla sér að hjálpa henni. Konugreyið reynir að segja þeim frá einhverjum hræðilega illum manni sem hefur víst “drepið þau öll”. Ekki nóg með þetta, heldur virðist konan vera búin að fá nóg af sinni jarðvist, skellir upp í sig byssu og skýtur sig. Krakkarnir reyna eins og þeir geta að finna einhverja hjálp og villast þá á Hewitt heimilið þar sem bíður þeirra allt annað en hjálp.


Eitt er víst, The Texas Chainsaw Massacre á eftir að vera virkilega vinsæl mynd. Ekki kæmi mér á óvart þótt að við heyrðum að þetta væri ógeðslegasta mynd allra tíma og allt þar fram eftir götunum. Það er svosem mjög skiljanlegt því að þetta virkar allt saman, stelpurnar skrækja í bíóhúsunum og strákarnir fá kannski að halda utan um þær á meðan.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að The Texas Chainsaw Massacre (2003) er illa misheppnuð endurgerð…


Marcus Nispel sem er ný dottinn úr tónlistarmyndböndum reynir að stjórna þessu sökkvandi skipi sem gengur jafn vel (eða illa) og búast mátti við. Hér sjáum við endalaus bregðuatriði sem skilja ekkert eftir sig nema kannski þá staðreynd að ég fæ líklegast fyrr hjartaáfall heldur en ég kæri mig um. Einnig held ég að kvikmyndatökumaðurinn mætti aðeins að slaka á með myndavélina, sem er á köflum eins stjórnað sé af illa höldnum Parkinsonsjúklingi. Það lá við að manni væri óglatt á tímabili og oftar en ekki var maður heppinn ef maður sá hvað væri í gangi sem minnti mig óskemmtilega á Thirteen Ghosts(2001).


Það hefði átt að halda sig við handrit Hoopers, það hafði skemmtilegan frumleika og alvöru hræðslu. Sem að þessi mynd var laus við, hvort sem það er gott eða slæmt.

Sögubreytingarnar eru margar hverjar fáránlegar, og er allt gert til að sannfæra áhorfandann um að þetta gæti/hefði gerst. Því það vill svo skemmtilega til að myndin er auglýst sem “byggð á sannsögulegum atburðum”, Það virkar vel því að unglingar og börn í Bandaríkjunum halda því nú fram að Leatherface sé til og að The Texas Chainsaw Massacre hafi í raun og veru gerst. Því miður fyrir þetta fólk þá er þetta eins fjarri sannleikanum og hægt er að komast. Upprunalega myndin var lauslega byggð á fjöldamorðingjanum Ed Gein, hann var notaður sem grunnur að persónunni Leatherface og heimili hans. Þannig að þið sem haldið að Leatherface hafi verið eða sé til þá verð ég að hryggja ykkur…


Vegna vinsælda myndarinnar er ég ósköp hræddur um að fleiri Chainsaw myndir fylgi í kjölfarið... og ef þær verða líkar þessari er ekki von á góðu.


The Texas Chainsaw Massacre er upprunarlega frá 1974 og hefur allt það sem góð hryllingsmynd þarf að hafa; skuggalegt andrúmsloft, hæfilega mikið af viðbjóði og illmenni sem stendur líklegast upp sem besta sköpun á þorpara sem sést hefur í hvíta tjaldinu.

The Texas Chainsaw Massacre frá 2003 hefur ekkert… nema kannski langþreytta formúlu fyrir unglingahrollvekju. Fullt af tilgangslausum bregðuatriðum og allt er reynt til að kreista fram viðbjóðstilfinningu hjá áhorfendum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Texas Chainsaw Massacre 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er erfitt að standa undir vinsældum brautryðjanda meistaraverks í kvikmyndaheiminum, jafnvel þótt að Tobe Hooper, leikstjóri The Texas Chainsaw Massacre hafi staðið á bak við þetta framhald. Það sem er kannski verst við þessa mynd er að framleiðendur hennar tímdu ekki að borga Gunnari Hansen það sem hann vildi fá fyrir að snúa aftur sem keðjusagamorðinginn.Ólíkt fyrri myndinni er The Texas Chainsaw Massacre 2 stór Hollywood framleiðsla, með alvöru peninga á bak við sig, en það er ekki alltaf það sem gerir gæfumuninn.


Leatherface er enn á kreiki og skilur eftir sig slóð af undarlegum morðum. Lögreglumaðurinn Lefty (Dennis Hopper) er kominn á slóðina og búinn að elta kauða í þónokkurn tíma. Eitt kvöldið þegar tveir strákar gera símaat í útvarpsstöð og verða myrtir í leiðinni, beinist athyglin að útvarpskonunni Strech (Caroline Williams) sem hljóðritaði morðið. Lefty notar hana til að komast að Leatherface og fjölskyldu hans.


Margt má betur fara og jafnvel stórleikari eins og Dennis Hopper getur ekki bjargað þessari mynd. Leikstjórinn Tobe Hooper hefur greinilega misst eitthvað af athyglisgáfu sinni við alla peningana sem hann fékk að leika sér með, því myndin stendur upprunarlegu myndinni talsvert að baki.


Leikstjórnin er alls ekki slæm, heldur er það aðalega handritið sem er meingallað. Það eina sem stendur virkilega uppúr er blóðbaðið sem meistarinn Tom Savini á heiðurinn af.


En þá kemur það upp á móti að það er einmitt ekki blóðið sem gerði The Texas Chainsaw Massacre I að því sem hún er, heldur blóðleysið ef svo mætti að orði komast.


Myndin hentar kannski þeim sem eru aðdáendur fyrstu myndarinnar en þessi mynd ekkert fyrir venjulegan áhorfanda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
28 Days Later...
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bretum hafa aldrei tekist sérstaklega vel til með hryllingsmyndir. Hvað þá núna síðustu árin, en eitthvað segir manni að þessi mynd er öðruvísi. Athyglin sem myndin er búin að fá er nóg til þess að setja hvaða lélegu hryllingsmynd á háan stall(Ring endurgerðin t.d.)

Í stuttu máli fjallar 28 Days Later um vírus sem brýst út í Bretlandi og allt fer til fjandans, við kynnumst Jim sem vaknar í yfirgefnum spítala og man ekkert hvað gerst hefur. Ekki skána hlutirnir þegar hann kemst út, London er yfirgefin, gjörsamlega tóm fyrir utan nokkra blóðþyrsta sýkta sem elta hann fram og til baka. Hann slæst í hóp með þeim fáu sem eftir eru og reyna þau að finna leið út úr þessu, eða lækningu við vírusnum.

Danny Boyle veit alveg hvað hann er að gera og tekst, þrátt fyrir mjög takmarkað fjármagn, og digital myndavél að skapa ótrúlegustu atriði. Það er skemmtileg vonleysistilfinning yfir allri myndinni sem ekki er hægt að segja að hafi tekist svona vel áður, nema þá kannski í Day of The Dead eftir Romero.

Myndatakan og lýsingin er öll byggð á þessu þema myndarinnar, myndavélin gengur oftar en ekki laus og skapar það óreiðutilfinningu ásamt dimmlega lýstu umhverfi.

Það er ekki fyrr en myndin fer að enda að hlutirnir fara niður á við. Annars frábært handrit er rifið í tætlur og gert að skrípaleik þegar hálftími er eftir af myndinni. Jim sem er búinn að vera hálfgerður aumingi alla myndina breytist í ofurhetju með krafta þeirra sem eru með veiruna og guð má vita hvað.

Leikararnir ná þó að halda sínu striki þrátt fyrir það og gefa þeir flestir frá sér einstakan leik, sem heldur myndinni meira og minna uppi.

28 Days Later er ekki mynd fyrir hvern sem er, hún mun aldrei ná á sama stall eins og Hollywood bregðumyndirnar í vinsældum(sem er gott að mínu mati). Hér er komin mynd sem minnir á gamlar, góðar hryllingsmyndir. Sem byggja á andrúmslofti, en ekki á ódýrum hræðslum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Thing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1951 kom út Sci-Fi myndin The Thing From Another World, eða The Thing eins og hún var kölluð. Myndin varð mjög þekkt og endaði sem klassík.

John Carpenter sem var á tímanum ný búinn að ljúka við Escape From New York og hafði verið að pæla í að endurgera þessa mynd í svolítinn tíma.

Útgáfa John Carpenters var þóg mun meira byggð á spennu og blóðsúthellingum en gamla útgáfan. Carpenter notaði sér efan um það hver væri í raun og veru skrímslið.

Þessi formula svínvirkaði hjá honum enda eru fáar myndir settar á eins háan stall í dag eins og The Thing.


Myndin gerist á suðurheimskautasvæðinu, í útvarðarstöð. Macready, söguhetjan er þar ásamt nokkurm öðrum harðjöxlum sem eyða vetrinum þar.

Eftir að, það sem virðist brjálaðir norðmenn drepa næstum einn þeirra við það að reyna að drepa hundsgrey þá fara hlutirnir að breytast. Þeir verða vitni að einhverju ómennsku. Hundurinn var í raun og veru geimvera sem getur tekið á sig nákvæmt form allra lífvera.

Eftir að þeir drepa veruna virðist allt í góðu en svo fara nokkrir þeirra að haga sér undarlega. Enginn veit hverjum má treista og hver er í raun geimveran. Enginn treystir neinum og eru ekki allir eins og þeir sýnast.


Tæknibrellurnar verða varla betri en í þessari mynd, notast er við mjög frumlegar hugmyndir sem hefðu verið nánast ómögulegar að framkvæma á þessum tíma.

Leikurinn er allur mjög góður þóg að ég hafi nú aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af Kurt Russel þá stendur hann sig með prýði hér.

Þessi mynd hefur elst betur en flestar hryllingsmyndir og held ég að mér sé óhætt að segja að þetta sé með betri endurgerðum sem til eru. Hún er spenna frá upphafi til enda og maður er alltaf að spurja sjálfan sig hver er í raun í lagi þarna.

John Carpenter hefur skilið eftir sig runu af góðum myndum á borð við; Halloween(1978), The Fog(1980), Big Trouble in Little China(1986), In The Mouth of Madness(1995) og Vampires(1998) svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er mynd sem allir hryllingsmyndamenn eiga að koma í safnið.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blade II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1998 kom út skemmtilega öðruvísi mynd í vampíruheiminn, Blade. Hún fór dálítið öðruvísi leið en aðrar myndir í sama flokki og má segja að hún hafi breytt aðeins stefnunni. Wesley Snipes mannaði þessa mynd ásamt snillingnum Kris Kristofferson, en ég hef nú aldrei verið hrifin af Snipes. Það má í raun og veru segja að þessi mynd hafi frekar verið bardaga-spennumynd í stað hryllingsmyndar en útaf því að þetta fjallar nú einusinni um vampírur þá sleppur þetta. Nú fjórum árum seinna kemur framhaldið og ætlaði ég mér alltaf að fara á hana í bíó en mistókst það einhvernvegin þannig að ég varð að sætta mig við sjónvarpið og græurnar. Ég var farinn að halda að gæinn á videoleigunni hafi látið mig fá nýjustu Jackie Chan myndina...


Eric er mættur aftur og er búinn að vera að leita að gamla félaga sínum Whistler sem að lifði víst af fyrri myndina. Hann kemst að því að erkióvinir hans, vampírurnar, eru með hann og það er nú ekki málið að redda því. Á meðan fáum við að kynnast nýrri tegund vampíra... Gæar sem líta út eins og nosferatu og þola silfur og hvítlauk. Ekki nóg með það heldur ef þær bíta aðrar vampírur þá fjölga þær sér. Vampírukynstofninum er ógnað af þessu og fá þá Eric(Blade) sér til hjálpar til að útrýma þeim. Eric kynnist þá Nyssa sem er dóttir einhvers æðstu vampíru og gengi sem hafði verið þjálfað til að drepa hann... skemmtilegt.

En getur Eric treyst erkióvinum sínum meðan þau reyna að útrýma þessum nýju vampírum?


Þessi mynd er ekkert annað en sýning. Hvert bardagaatriðið á fætur öðru og ekki vantaði techno tónlistina sem fylgir þeim.

Sum atriðin voru meira að segja bara ílla gerð, t.d. þegar Eric(Blade) hittir Nyssa fyrst þá er þetta eins og maður sé að horfa á Tekken eða einhvern álíka bardagatölvuleik. Sorglegt en satt... hefðu átt að sleppa að tölvugera bardagana.

Tónlistin er ekki uppá marga fiska og er Eric gerður svo hrikalega, hallærislega, of svalur að það er ekkert fyndið.

Það eina góða við þessa mynd eru nýju vampírurnar sem voru vægast sagt hrikalega flottar, förðunin fær stóran plús og hönnunin á þeim, þó að hún hafi verið svolítið Sci-Fi.

Fyrri myndin er án efa mikklu betri og ekki nærri því eins ýkt.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghost Ship
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nú er nýjasta Dark Castle myndin komin, en Dark Castle er einmitt að endurgera hryllingsmyndir eftir hinn vinsæla William Castle en hann gerði margt og mikið hérna áður fyrr. Ghost Ship er þriðja myndin sem kemur frá fyrrnefndu fyrirtæki og bjóst ég nú ekki við miklu þar sem ég hafði heyrt að þetta væru hin verstu mistök og sorp. House on The Haunted Hill (1999) kom fyrst, svo Thir13en Ghosts (2001) og nú loks Ghost Ship og lítur allt út fyrir að Dark Castle sé á hraðri niðurleið.

Virðist vera að hryllingsmyndir nú til dags gangi útá það eitt að láta manni bregða og er Ghost Ship engine undantekning þar. Virkilega sorglegt að það er ekki hægt að hræða mann eitthvað af viti eins og var gert í The Changeling (1980), og The Exorcist (1973). Það er eins og að hryllingsmynda-framleiðendur hafi gjörsamlega tapað þessu og spili bara á einhverjar sekúndur sem þjóna þeim eina tilgangi að koma hjartslættinum í óreiðu.


Sean Murry og lið hans af hörðum sjóurum fá það verkefni að finna skip sem maður nokkur kom auga á, rekandi í miðjum sjónum(í sjónum, virkilega). Þau leggja af stað og er það víst þannig að ef skipið ber einhver verðmæti þá mega þau eiga það því að sá á fund sem finnur á hafinu.

Skipið sem þau finna sér til mikillar undrunar er frá 1962 frá Ítalíu. Frægt skemmtiferðaskip sem einfaldlega hvarf. Það líður ekki á löngu fyrr en furðulegir hlutir fara að gerast og finna þau sér til mikkilar gleði hrúguna alla af gulli. Þau ákveða að gera við stórt gat á skipinu svo að mögulegt sé að draga það í land en allt kemur fyrir ekki. Báturinn sem þau komu á springur í tætlur sem setur þau í þá aðstöðu að þau verða að sigla skemmtiferðaskipinu draugalega í land.

Það er óþarfi að segja það en nokkrar hindranir eru á leiðinni…


Mér fannst ótrúlega mikið af atriðum sem minntu á The Shining (1980), þ.á.m. drykkju skipstjórans og dansiballið. Ég tala nú ekki um þegar hann klikkast, þ.e. skipstjórinn.

Þetta er sami leikstjórinn og gerði Thir13en Ghosts en samt tekst honum að koma með allt annan filing í þessa mynd mér til mikillar undrunar. Ekkert sérstakt til að setja útá hjá honum og er ég þónokkuð sáttur við að hann sleppti brjáluðu skotunum sem við kynntumst í Thir13en Ghosts.

Leikararnir eru allir frekar slappir nema þá helst Gabriel Byrne sem fer með hlutverk skiptjórans og litla stelpan sem ég man ekki hvað hét.

Tónlistin er það versta við þessa mynd, opnunar lagið er gott og blessað en síðan fylgir endalaus popp-techno kjaftæði sem var að eyðileggja mörg atriði, mér er þó minnistæðast “flashback” atriðið þar sem stelpan sýnir Maureen Epps hvað gerðist, tónlistin gjörsamlega eyðilagði þetta.

Mun betri en Thir13en Ghosts og hefur sínar stundir, hlakka mikið til næstu Dark Castle mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef oftar en ekki rifið mig útaf endurgerðarbrjálæði Kanans og varð ég nú ekkert sérstaklega spenntur þegar ég frétti af þessu. Asnarlega við þetta allt saman er að Ringu er frá 1998, ég skil vel að gamlar myndir séu endurgerðar(1960 og niður úr), að færa gamlar myndir í heim nýrra áhorfenda, en að endurgera mynd sem er enn talin ný og er enn í góðu gildi, er alveg útí hött. En við vitum öll ásætðuna fyrir endurgerðinni… peningar.

Nattevakten(1994) var endurgerð og kom það hrikalega út og nú er verið að vinna að því að endurgera The Texas Chainsaw Massacre(1974) og sögubreytingarnar lofa ekki góðu.

Þrátt fyrir allt hefur The Ring slegið rækilega í gegn í Bandaríkjunum og er auglýsingaherferðin mjög vel skipulögð því nú þegar er komið Ring æði hér á Íslandi.


Rachel Keller er fréttaritari sem er ný búin að missa frænku sína. Sonur hennar Aidan tekur þessu hrikalega þar sem hann og frænkan voru mjög náin. Ekki er allt með felldu því að frænkan dó á fremur óútskýranlegan hátt, engin getur sagt hvað skeði.

Rachel fer í kjölfarið að rannsaka málið og kemst brátt að því að ekki bara hún heldur einnig fjórir vinir hennar létust þetta sama kvöld á sama tíma. Allt er þetta tengt goðsögn um videospólu sem hefur þá bölvun að hver sá sem horfir á hana deyr eftir akkurrat viku.

Leit hennar færir hana að kofa sem að krakkarnir voru í viku áður en þau dógu og finnur hún þar videospóluna. Auðvitað skellir hún henni í tækið og horfir, sér til mikillar skelfingar að hún mun deyja eftir viku.

Rachel reynir að sannfæra fyrrverandi mann sinn, Noah til þess að hjálpa sér og hann kíkir á spóluna en trúir ekki orði af því sem hún segir um að deyja eftir viku og allt það.

Furðulegir hlutir fara að gerast og fyrr en varir er sonur þeirra líka búinn að sjá spóluna og þau berjast nú til þess að stoppa þessa hrikalegu bölvun.


Það sem gerði Ringu(1998) sérstaka, og virkilega góða hryllingsmynd, er það að hún spilaði á hræðsluna, ekki 2-4 sekúndna bregðu-atriði sem einkenna hryllingsmyndir nú til dags. Þessu klúðraði Verbinski þeir algerlega í The Ring(2002) því að ekkert stendur eftir nema bregðu-atriðin, skjalaskápar eru ekki ógnvekjandi...

Videoið var ekki jafn sannfærandi og í Ringu(1998) og náði myndin enganveginn að halda uppi sömu spennu og forverinn.

Það sem stendur upp úr í þessari mynd er myndatakan sem er virkilega skemmtileg og frumleg á köflum, leikararnir standa sig líka vel en annað er ekki þess virði að nefna.

Það kannski allra versta við þessa mynd, svo ég haldi áfram að miða við fyrri myndina, eru sögubreytingarnar. Þeim tókst að eyðileggja dulúðina sem lág á bak við Sadako/Samara.

Sem endurgerð er þessi mynd hrikaleg og ættu allir að halda sig frá henni, en sem sjálfstæð mynd er hún áhugaverður tryllir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei