Gagnrýni: Flight

Kvikmyndin Flight var frumsýnd síðastliðinn föstudag í bíóhúsum hérlendis en myndin kom út í Bandaríkjunum árið 2012. Flight skartar Denzel Washington í aðalhlutverki en snillingarnir Don Cheadle og John Goodman fara svo með tvö af aukahlutverkunum. Sá sem heldur um stjórnartaumana er leikstjórinn Robert Zemeckis en fyrir þá sem ekki kannst við hann þá er það leikstjórinn sem fékk Forrest Gump til að hlaupa af sér spelkurnar og kvikmyndaunnendur til að fella tár yfir blakbolta í myndinni Cast Away. Auk þessara tveggja stórmynda hefur hann leikstýrt myndum á borð við Back to the Future og The Polar Express. Hann er því mikill fagmaður og kann heldur betur listina sem fólgin er í því að hreyfa við áhorfendum.

Í upphafi Flight fær áhorfandinn að kynnast Whip Whitaker (Denzel Washington), flugmanni sem á við alvarlega eiturlyfja- og áfengisfíkn að etja. Í byrjunaratriðinu má sjá hann vakna með erfiðleikum eftir augljóslega skemmtilega nótt, umkringdur tómum áfengisflöskum og kviknaktri flugfreyju. Þar sem hann er að fara í flug þennan sama morgun tekur hann nokkra afréttara og fær sér kókaín í nösina til að hressa sig við. Þegar í flugið sjálft er komið fáum við að sjá hann klífa flugvélinni sem hann flýgur upp í gegnum erfiðan storm en í atriðinu er því komið til skila að Whip sé afbragðs flugmaður. Aftur á móti er Whip, áhöfnin og farþegar flugvélarinnar ekki lengi í paradís þar sem flugvélin byrjar nokkrum mínútum síðar að steypast niður á við með tilheyrandi ósköpum og vélarbilunum. Það er eflaust óþarfi að segja meira frá þeirri senu en það má þó með sanni segja að atriðið eitt og sér gerir myndina þess virði að sjá í kvikmyndahúsi. Til þess að gefa lesendum þessarar gagnrýni smá innsýn í söguna er óhætt að segja frá því að Whip tekst að lenda vélinni á óskiljanlegan hátt en þó með þeim afleiðingum að 6 manneskjur láta lífið.

Í framhaldi af flugslysinu kemst það upp að Whip hafi verið með áfengi og fíkniefni í blóðinu og söguframvinda myndarinnar er keyrð áfram af rannsókninni á flugslysinu og hvernig Whip sé mögulega sekur um manndráp af gáleysi þegar hann stýrði heilli flugvél með áður nefnt áfengi og fíkniefni í blóðinu. Myndin fjallar þó að miklu leyti um baráttu Whip við sjálfan sig og fíknina en hann finnur mikla huggun hjá konu sem hann kynnist eftir flugslysið, sem sjálf á við alvarlega heróínfíkn að etja. Þá fær áhorfandinn að kynnast betur forsögu Whip og hvernig hann hafi misst konu sína og son sinn frá sér vegna neyslu sinnar. Myndin snertir einnig á pólitíkinni sem fylgir slíkum stórslysum en gamall kunningi Whip hjá stéttarfélagi flugmanna reynir að koma honum til aðstoðar með hjálp stjörnulögfræðings sem leikinn er af Don Cheadle. Á meðan reynir flugfélagið að breiða yfir þá staðreynd að Whip hafi verið í því ásigkomulagi sem hann var í og þá reynir rannsóknarnefnd flugslyssins að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja það að Whip verði sakfelldur.

Þá veltir myndin upp áhugaverðum siðferðilegum spurningum og fær áhorfandann virkilega til að hugleiða hvað sé rétt og rangt, hvernig manneskja geti verið hetja og skúrkur á sama tíma. Það er einmitt spurningin sem vefst fyrir Whip sem fullyrðir það að engin hafi getað lent vélinni eins og hann gerði og hann sér því í fyrstu ekkert rangt við það að hafa verið óhæfur vegna eiturlyfja og áfengis, þegar hann stýrði flugvélinni frá harkalegri brotlendingu.

Denzel Washington er hreint útsagt stórkostlegur í þessari mynd og eflaust hans allra besta frammistaða síðan í Training Day. Túlkun hans á flugmanninum er virkilega góð þar sem hann sveiflast frá því að vera sjálfsöruggur töffari yfir í það að vera veiklyndur fíkill í stórkostlegri afneitun. Í raun má segja að fáir, ef einhverjir, leikarar hafi getað túlkað persónuna á sama hátt og Denzel gerir. Alveg frá fyrstu mínútu myndarinnar er áhorfandanum annt um Whip og afdrif hans og dregst ósjálfrátt inn í þá sálfræðilegu baráttu sem Whip stendur frammi fyrir. Það verður að sjálfsögðu einnig að hrósa frábæru handriti og leikstjórn en Zemeckis tekst að draga áhorfandann inn í söguna alveg frá byrjun til enda. Byrjunaratriðið, eins og áður hefur verið nefnt, er svo vel útfært að jafn spennandi og áhrifaríka senu er erfitt að finna.

Á heildina litið er þetta frábær mynd. Ef til vill eru einhverjir sem hefðu viljað sjá meiri hraða eða spennu eftir þetta svakalega byrjunaratriði en í raun er miðpunktur myndarinnar hvorki flugslysið sjálft né dómsmálið sem því fylgir heldur er miðpunkturinn barátta Whip við sjálfan sig og fíknina en það er einmitt það sem gerir myndina spennandi og áhugaverða, þ.e. að sjá hvernig fer fyrir þessum manni sem áhorfandinn tengir svo vel við.

Einkunn: 4/5