Kvikmyndagagnrýni: G.I Joe Retaliation

Einkunn: 2/5

Kvikmyndin G.I. Joe Retaliation er nú til sýningar hér á landi en með aðalhlutverk í myndinni fara Dwayne Johnson og Adiranne Palicki en í aukahlutverkum eru þeir Channing Tatum, Bruce Willis og Jonathan Pryce. Með leikstjórnina fer Jon M. Chu en hann á að baki dansmyndirnar Step Up 2 og Step Up 3D ásamt því að hafa leikstýrt heimildarmynd um Justin Bieber.

Í stuttu máli fjallar myndin um baráttu G.I. Joe sveitarinnar við hinn skelfilega Cobra Commander og her illmenna sem starfa undir formerkjum hans. Liðsmenn Cobra Commander hafa þannig náð völdum í hvíta húsinu með hjálp manns sem kallast Zartan og dulbýr sig með einhverri óskiljanlegri tækni sem forseti Bandaríkjanna á meðan að hinum réttmæta forseta Bandaríkjanna er haldið föngum. Í krafti valds síns sendir þessi falski forseti G.I. Joe sveitina inn í Pakistan og leiðir þá þar í gildru sem verður til þess að sveitin er stráfelld og aðeins fáir lifa af. Jafnframt lýgur Zartan, sem forseti Bandaríkjanna, að þjóðinni að G.I Joe sveitin hafi svikið þjóð sína. Það er því undir þeim fáu sem lifðu af komið að hreinsa nöfn sín og látinna félaga sinna, en til þess fá þeir hjálp frá fyrrum G.I Joe dáta auk þess sem hjálp úr óvæntri átt kemur þeim til góða.

Það er eflaust óþarfi að hafa fleiri orð um söguþráð myndarinnar en frá byrjun til enda er það hasarinn sem leikur aðalhluverkið og söguþræðinum er stillt í hóf. Þó svo að hasaratriðin séu raunveruleg á myndrænan hátt er myndin í heild sinni virkilega óraunhæf, hvort sem það er herbúnaðurinn sem þar kemur fram, bardagaatriðin eða söguþráðurinn sjálfur.

Sem dæmi má nefna atriði í myndinni þegar allir helstu leiðtogar heimsins koma saman undir þaki Bandaríkjanna og allir hafa þeir litla skjalatösku með sér sem þeir geta notað til að setja kjarnorkusprengjur heimsins í gang, eða eyða þeim öllum með einum hnappi. Meira að segja leiðtogi Norður-Kóreu mætir á svæðið eins og ekkert sé eðlilegra og hann gerður einkar trúðslegur á eftirminnilegan hátt. Þá er allri persónusköpun haldið í algjöru lágmarki og er lítil sem engin. Aftur á móti virðist handritið hafa haft það að markmiði að hafa flest allar persónurnar úr G.I. Joe seríunni í myndinni, sem gerir það að verkum að söguframvinda myndarinnar fer fram og tilbaka sem gerir það að verkum að erfitt er að byggja upp tengsl við söguna og persónur hennar. Hér er því um nokkuð heilalausa skemmtun að ræða, ef skemmtun skyldi kalla, sem er í mesta lagi einnar stjörnu virði.

Það sem  hins vegar dregur einkunina frá 1/5 upp í 2/5 eru tæknibrellurnar og útfærslan á þeim. Mjög vel að verki staðið þar og þrívíddartæknin notuð á réttan og góðan hátt. Flest öll hasaratriðin voru mjög grafísk og sem dæmi má nefna bardagaatriðið þar sem ninjurnar voru að kljást hver við aðra í fjallshlíðunum, þrátt fyrir að atriðið í heild sinni hafi verið mjög óraunhæft þá má samt sem áður hrósa þeim fyrir sjónrænu útfærsluna á atriðinu.

Undirritaður vill hins vegar fá meira fyrir peninginn en bara tæknilegar útfærslur, þá er allt eins hægt að sitja bara heim og horfa á Adobe fyrirlestra. Þó svo að hasarmyndir snúist að mestu leyti um sjálfan hasarinn þurfa þær samt sem áður að skilja eitthvað eftir og vekja upp einhverjar tilfinningar. G.I Joe Retaliation var langt frá því og þar með skorar hún undir meðallagi sem slík hasarmynd.