Frammistaða Crowe ógnvekjandi og fagleg

Kraven the Hunter, ofurhetjumyndin frá Sony, er handan við hornið en hún verður frumsýnd hér á Íslandi fimmtudaginn 12. desember nk.

Eins og fram kemur í vefritinu GamesRadar+ þá hefur leikstjórinn J.C. Chandor lýst myndinni sem fjölskyldudrama sem kristallist í sambandinu á milli persónu Aaron Taylor-Johnson, Sergei Kravinoff, og föður hans, glæpamannsins Nikolai, sem leikinn er af ástralska leikaranum Russell Crowe.

Eitt mesta átrúnaðargoðið

Myndin gaf bæði Chandor og Taylor-Johnson tækifæri til að vinna með einu mesta átrúnaðargoði sínu á hvíta tjaldinu.

„Hann er goðsögn,“ segir Taylor-Johnson um Crowe við GamesRadar+. „Ég ólst upp við að dýrka hann. Hann var algjör hetja í mínum augum. Þannig að það að geta leikið feðga í þessari kvikmynd, þar sem bæði er boðið upp á átök og drama, er draumur að verða að veruleika.“

Taylor-Johnson lýsir frammistöðu Crowe í myndinni sem ógnvekjandi og leikarinn væri fagmaður fram í fingurgóma.

Kraven the Hunter (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.4
Rotten tomatoes einkunn 15%

Eftir að hafa orðið fyrir árás ljóns öðlast Sergei Kravinoff yfirnáttúrulega og dýrslega krafta. Flókið samband hans við grimman föður sinn ýtir honum út á braut hefndar með hrottalegum afleiðingum. Á sama tíma gerir þetta hann að besta veiðimanni í heimi....


HORFÐU Á FYRSTU 11 MÍNÚTURNAR AF MYNDINNI

Chandor bætti við að viðvera Crowe á tökustað hafi orðið leikaraliði og tökuliði hvatning um að leggja sig fram og gefa allt sem þau áttu.

„Eftir um þrjátíu daga tökur vorum við farin að kynnast vel. Þú ferð inn í mynstur. Og svo birtist þessi náungi … Ég hef sagt að það megi líkja því við að körfuboltagoðsögnin Michael Jordan hefði birtst í líkamsræktarsal. Allir leggja sig meira fram og ná betri árangri.“

Eins og segir á vef Marvel þá er Kraven the Hunter, eða Sergei Kravinoff, fæddur inn í rússneska aðalsætt og á ofbeldisfullan föður. Hann verður síðar trítilóður sportveiðimaður í Afríku. Þegar hann drekkur eitur þá aukast líkamsburðir hans til muna. Nú, sem Kraven the Hunter, hefur hann fundið sér aðra bráð, Köngulóarmanninn.

Aðrir leikarar í myndinni eru Ariana DeBose, Fred Hechinger og Alessandro Nivola.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: