Framtíðarfræðingur um Westworld – Hve raunverulegir eru þættirnir?

Sjónvarpsþættirnir Westworld þykja vel heppnaðir, en búið er að sýna þrjá þætti nú þegar á Stöð 2. Þættirnir eru úr smiðju HBO sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku, og eru byggðir á samnefndri bíómynd frá árinu 1973. Þeir sem séð hafa þættina sem komnir eru nú þegar, velta því sjálfsagt fyrir sér hvenær í tíma þættirnir eiga að gerast og hversu raunverulegir þeir séu. Er mögulegt að gera svona skemmtigarð með jafn raunverulegum vélmennum og koma við sögu í garðinum, og ef ekki, hvenær verður það hægt?

westworld

Það eina sem vitað er er að leikstjórinn Jonathan Nolan hefur sagt að þættirnir gerist á 21. öldinni, en ekki hvenær á þeirri ágætu öld.

Til upplýsinga fyrir þá sem ekki hafa séð þættina enn, þá er Westworld gríðarstór skemmtigarður í vestrastíl, þar sem gestir borga stórfé, um 40 þúsund Bandaríkjadali á dag, eða um 4,5 milljónir íslenskra króna, fyrir að fá að gera nákvæmlega það sem þeim sýnist í garðinum, þar á meðal að skjóta og myrða alla sem þeir hitta ( þ.e. vélmennin ).  En ekki er allt sem sýnist og svo virðist sem vélmennin, sem haga sér eftir fyrirframgefnu handriti ( forriti ), séu farin að taka upp sjálfstæðan vilja!

Á vefsíðunni Vulture var nú nýverið birt samtal við framtíðarfræðinginn Martin Ford,  höfund bókarinnar Rise of the Robots, um Westworld og möguleikann á að búa til svona vélmenna – gervigreindarheim.

„Það eru tvö tæknileg atriði hér. Eitt er gervigreindin, og hin er að byggja vélmenni sem er svo líkt manni, vélmenni sem hægt er að snerta og halda að sé raunverulegur maður, sem eitt og sér er stórkostlegt tæknilegt afrek. Líklega hafa þessi vélmenni einhverjar lífræna parta, en það er þá ástæðan fyrir því að vélmennin eru geymd á köldum stað – kannski er þetta alvöru húð eða eitthvað. Allt þetta dót er hluti af framtíðinni, og ekki á næsta leiti.“

„Eitt af meginatriðum þáttanna er að erfitt er að greina vélmennin frá fólki, og ég held að það sé nokkuð sem við munum upplifa í nálægri framtíð. En það verða ekki raunveruleg vélmenni, það verður meira sýndarsamskipti, eins og með spjall-róbót, kannski í sýndarveruleika. Slíkt má sjá nú þegar að einhverju marki. Til dæmis í Kína, spjall-róbótar sem fólk talar við klukkutímum saman, og slíkt mun fara vaxandi. Mörkin milli hins mannlega og hvað er vélrænt, eru alltaf að verða óljósari. “

Myndirðu sem sagt segja að við værum nær því að búa til raunverulega gervigreind en að búa til vélmenni sem líta út eins og vélmennin í þáttunum?

„Kannski, en að búa til raunverulega greinda vél, vélmenni sem hefur þessa heildstæðu greind sem manneskja býr yfir, er enn stórkostleg áskorun, eitthvað sem býr langt inn í framtíðinni. Sumir telja að slíkt muni aldrei gerast, en ég myndi giska á að ef það gerðist þá gæti það orðið í fyrsta lagi eftir 30 ár, en öllu heldur eftir 50 ár.

Telurðu að ef okkur tekst að búa til manngervinga með raunverulega greind, að við munum lenda í þeim vandræðum sem virðast vera að byrja í þáttunum: vélmennin verði meira sjálfsmeðvituð og vilji haga sér öðruvísi en þau eru forrituð til að gera?

„Maður gæti ætlað að slíkt gæti komið upp. Það er þó mjög óvíst. Við erum að tala um hluti sem aldrei hafa verið gerðir og munu kannski aldrei verða gerðir. Það er augljóslega fullt af mjög kláru fólki sem vinnur að svona hlutum, og er meðvitað um þessar hættur, ef við búum til vélar sem geta hugsað sjálfstætt og geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir.“

Ef tæknin innan Westworld er svona þróuð, hvernig ætli heimurinn utan garðsins líti út?

„Þetta gerist greinilega í samfélagi þar sem ótrúlegir hlutir hafa gerst annarsstaðar einnig. Ég myndi telja að orðið hefðu miklar framfarir í læknavísindum og í líftækni. Þarna eru sjálfkeyrandi bílar, til dæmis. […] Vélmenni sem steikja hamborgara. Allskonar sjálfvirkni og algórithmar sem geta vélvætt allskonar skrifstofustörf, eins og fréttaskrif til dæmis. Það mun gerast á næstu 20 árum.“

Afhverju ætli fólkið sé svona áhugasamt um að koma í skemmtigarðinn. Er það af því að lífið er svona slæmt utan garðsins?

„Í framtíðinni verður líklega mun auðveldara, ódýrara og hagfelldara, að fara bara inn í sýndarveruleika, og upplifa þetta allt, heldur en að fara í raunverulegan garð með vélmennum  – ég giska amk. á það. Þannig að kannski er hluti af því sem er að gerast í heiminum utan garðsins þannig, að allir búa í sýndarheimi og það er einhver jaðarhópur fólks sem vill fara og upplifa hlutina raunverulega, með alvöru snertingu.“

Smelltu hér til að lesa allt viðtalið við Martin Ford.