Fjórir nýir Vesalingar – Flott plaköt og trailer

Í gær birtum við glænýtt plakat með Russel Crowe í hlutverki sínu í Vesalingunum, Les Misérables, mynd Tom Hooper sem er kvikmyndaútfærsla á hinum vinsæla söngleik með sama nafni. Myndin verður frumsýnd um næstu jól.

Sjálfsagt hafa margir séð þennan söngleik á fjölum Þjóðleikhússins en hann gekk fyrir fullu húsi frá því í byrjun mars og fram á síðasta sumar og uppskar níu tilnefningar til Grímu verðlaunanna.

Hér eru fjögur plaköt til viðbótar:

Anne Hathaway í hlutverki sínu sem Fantine, en hún syngur meðal annars þekktasta lagið úr söngleiknum I Dreamed a Dream. Fantine er verkakona og móðir Cosette og var leikin af Valgerði Guðnadóttur í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Amanda Seyfried leikur Cosette og er með fullt hjartað af ást, sbr. það sem fram kemur á plakati hennar. Cosette er dóttir Fantine og fósturdóttir Valjeans. Vigdís Hrefna Pálsdóttir lék hana í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Hugh Jackman leikur aðalhlutverkið Jean Valjean, strokufanga sem síðar verður borgarstjóri og verksmiðjueigandi. Þór Breiðfjörð lék hann í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Isabelle Allen  leikur persónu Seyfried þegar hún er ung. Hrefna Karen Pétursdóttir og Halldóra Elín Einarsdóttir léku þetta hlutverk í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Í öðrum aðalhlutverkum í Les Misérable eru Helena Bonham CarterSacha Baron Cohen og Eddie Redmayne.

Á heimasíðu Þjóðleikhússins segir eftirfarandi um söguþráð Vesalinganna:

Söngleikurinn Vesalingarnir er byggður á hinni frægu skáldsögu Victors Hugos sem gerist í París á fyrri hluta 19. aldar. Við fylgjumst með baráttu Jeans Valjeans fyrir því að hefja nýtt líf úti í samfélaginu, en hann hefur þurft að sitja árum saman í fangelsi fyrir smávægilegt brot. Örlög hans tengjast miklum samfélagslegum hræringum og lífi fjölda fólks. Við kynnumst hinum útskúfuðu, fátæklingum, vörðum laganna, vændiskonum, verkafólki, útsmognum smáglæpamönnum, stúdentum og byltingarsinnum. Og við skyggnumst undir yfirborðið og fáum innsýn í þjáningar þessa fólks, vonir og ástir, og baráttu þess fyrir betra lífi.