Seinfeld sannfærði Jackman um að hætta sem Wolverine

Ástralski leikarinn Hugh Jackman settist niður með leikaranum Willem Dafoe fyrir tímaritið Variety til þess að ræða m.a. um leiklist og gerð kvikmyndarinnar Logan. Jackman er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Wolverine, en hann fór með hlutverkið í átta kvikmyndum frá árinu 2000 þar til hann lék hann í síðasta skipti í áðurnefndri kvikmynd á þessu ári.

Jackman segir í viðtalinu að hann hafi tekið þá ákvörðun að hætta sem Wolverine eftir kvöldverð með grínistanum Jerry Seinfeld. Þar ræddu þeir um hvernig Seinfeld batt endi á gamanþættina sem voru skírðir í höfuðið á honum og nutu gríðarlegra vinsælda á tíunda áratugnum. ,,Láttu þig hverfa áður en teitið er búið,” sagði Seinfeld m.a. við Jackman sem tók þessum ráðum persónulega til sín og ákvað í kjölfarið að Logan yrði hans síðasta kvikmynd sem Wolverine. Myndin hlaut góðar viðtökur bæði frá gagnrýnendum og aðdáendum X-Men myndanna.

Í spilaranum hér að neðan má sjá Jackman lýsa þessum kvöldverði betur fyrir sig.