Fjórar nýjar myndir náðu ekki að velta öpum af toppnum

Genabreyttu aparnir í The Rise of the Planet of the Apes héldu toppsætinu á bandaríska og kanadíska bíóaðsóknarlistanum, aðra vikuna í röð. Myndin þénaði 27,5 milljónir Bandaríkjadala nú um helgina og utan Ameríku þénaði myndin 40,5 milljónir dala.

Fjórar nýjar myndir voru frumsýndar nú um helgina, en engin þeirra náði að ryðja öpunum af toppnum. Myndin um tímabil réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum, The Help, komst næst því og fékk góða aðsókn þó hún hafi ekki náð að skáka Apaplánetunni en tekjur af sýningu myndarinnar námu 25,5 milljónum dala sem er meira en framleiðendur höfðu búist við.

Góð gagnrýni og A+ einkunn frá neytendakönnunarfyrirtækinu CinemaScore, gaf The Help byr undir báða vængi, en myndin er byggð á metsölubók Kathryn Stockett. Myndin fjallar um líf auðugra hvítra kvenna í Mississippi og þeldökka þjóna þeirra. Myndin kostaði um 25 milljónir dala í framleiðslu.
Í þriðja sæti aðsóknarlistans um helgina var önnur ný mynd, hryllingsmyndin Final Destination 5, en þar reynir fólk sem lifir af þegar risastór hengibrú hrynur, að forðast dauðann. Myndin þénaði 18,4 milljónir dala, sem var í lægri kantinum miðað við það sem framleiðendur bjuggust við.
The Smurfs, sem hefur slegið óvænt í gegn í sumar, lenti í fjórða sætinu með 13,5 milljónir dala á þriðju viku í sýningum. Auk þess rakaði myndin inn 60 milljónum dala utan Bandaríkjanna.

Þriðja nýja myndin, gamanmyndin 30 minutes or less með Social Networks stjörnunni Jesse Eisenberg, lenti í fimmta sæti með 13 milljónir í tekjur. Myndin fjallar um tvo glæpamenn sem ræna pítsusendli, festa sprengju um hann miðjan og skipa honum að ræna banka. Myndin kostaði 28 milljónir dala í framleiðslu.

Fjórða nýja myndin var Glee: The3D Concert Movie, náði ekki inn á topp tíu listann, og þénaði 5,7 milljónir dala. Í myndinni eru í bland sýnd dans og söngatriði frá Glee tónleikaferð í Bandaríkjunum, og viðtöl við aðdáendur þessarar vinsælu sjónvarpsseríu. Myndin kostaði 9 milljónir dala í framleiðslu og einungis á að sýna hana í tvær vikur .