Fjórar íslenskar með RIFF í Póllandi

rifffffÍslenskar kvikmyndir eru í brennidepli á kvikmyndahátíðinni í Poznan í Póllandi sem fer nú fram. Af fimm myndum í flokknum „New Scandinavian Cinema“ eru hvorki meira né minna en fjórar íslenskar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, en myndirnar voru valdar í samstarfi við RIFF.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, og Elísabet Ronaldsdóttir, sem situr í stjórn RIFF, eru enn fremur báðar gestir hátíðarinnar í Poznan. Hrönn tekur þátt í umræðum um stjórnun menningarviðburða þar sem hún miðlar af reynslu sinni við að koma RIFF á koppinn hérlendis, en hátíðin fer fram í tíunda sinn núna í haust. Elísabet verður með masterklassa sem fjallar um skyldur klipparans við handrit þegar að klippiborðinu er komið. Meðal annarra gesta hátíðarinnar má nefna Thurston Moore og Yoko Ono.

djupidMyndirnar sem um ræðir eru Djúpið, Svartur á leik, Eldfjall og Á annan veg. RIFF kynnti síðast úrval íslenskra kvikmynda við hátíðlega athöfn í Rómarborg í vetur og til stendur að kynna íslenska kvikmyndagerð í Rússlandi eftir áramót.

Sem fyrr segir fer RIFF fram í tíunda sinn nú í haust, dagana 26. september til 6. október. Starfsfólk hátíðarinnar vinnur nú hörðum höndum að því að koma mynd á dagskrá hátíðarinnar sem verður kynnt smám saman á næstu vikum.

Stikk: