Fjör á Avengers-settinu

Alveg frá því þegar fyrsta kitlan fyrir stórmyndina The Avengers leit dagsins ljós núna fyrr í sumar (í lokin á Captain America) hafa bæði myndasöguaðdáendur og kvikmyndaáhorfendur næstum því byrjað að telja niður dagana í Maí næstkomandi. Allir bíða spenntir eftir glænýju sýnishorni enda var hitt ekki nema rétt svo mínúta að lengd. Óvíst er nákvæmlega hvenær við fáum að sjá eitthvað meira en þangað til verða þessar skemmtilegu stillur af settinu að duga. Þær sýna helstu leikara myndarinnar (Robert Downey Jr., Chris Hemsworth, Scarlett Johansson, Chris Evans o.fl.) og það sem einkennir ljósmyndirnar er létta, huggulega andrúmsloftið, sem maður býst venjulega ekki við miðað við hversu strembnar tökurnar á svona mynd geta verið.

Fyrir þá sem ekki ennþá vita þá er The Avengers alveg ein sinnar tegundar og sameinar hetjurnar Iron Man, Hulk, Thor og Captain America (ásamt öðrum) í sömu myndina. Hún verður frumsýnd eftir cirka 8 mánuði. Kíkið endilega á stillurnar hér að neðan og þá kannski eykst spennan bara örlítið.