Ferrell skorar á konu í tennis

Bandaríski gamanleikarinn Will Ferrell ætlar að gerast alvarlegur á næstunni og leika aðalhlutverkið í sannsögulegri mynd um frægan tennisleik á milli karl- og kvenkyns tennismeistaranna Billie Jean King og Bobby Riggs.

will ferrell

Variety segir frá því að Ferrell muni leika Riggs, kjaftfora 55 ára gamla tennisstjörnu sem tók tennisspaðann af hillunni til að leika á móti hinni ungu og efnilegu King, sem þá var 29 ára gömul. Hélt Riggs því fram að hann gæti unnið King vegna þess að hún væri kona.

Leikurinn fór fram árið 1973 og hlaut mikið sjónvarpsáhorf. King sigraði leikinn, og þaggaði þar með eftirminnilega niður í Riggs og öðrum karlkyns gagnrýnendum um allan heim.

Þetta verður ekki í fyrsta skiptið sem Ferrell leikur í íþróttamynd. Hann lék listhlaupara á skautum í Blades of Glory og fótbolta og körfuboltaleikmann í Kicking and Screaming og Semi Pro. Hann er sjálfur mikill íþróttaáhugamaður og dyggur fylgismaður USC football ruðningsliðsins og körfuboltaliðsins Los Angeles Lakers.

Myndin, sem mun heita Match Maker, verður byggð á ESPN grein frá árinu 2013 eftir Don Van Natta Jr. sem kallaðist: „The Match Maker: Bobby Riggs, the Mafia and the Battle of the Sexes.“