Everest fær góða dóma hjá Hollywood Reporter

Everest, nýjasta mynd Baltasars Kormáks, fær mjög góða dóma í kvikmyndaritinu virta The Hollywood Reporter.  everest-620x439

Myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í kvöld.

Gagnrýnandinn segir myndina bæði raunsæja og spennandi. Leikararnir fá einnig plús í kladdann fyrir sína frammistöðu.

„Everest fer ekki ódýru leiðina eða reynir að búa til mikið úr hlutunum þegar ekki er þörf á því. Myndin er trú mönnunum og konunum sem hafa ferðast til Himalaya-fjalla af mismunandi ástæðum en með sama tilgangi: að komast á topp heimsins.“

Baltasar fær einnig rós í hnappagatið hjá gagnrýnandanum. „Baltasar stendur sig mjög vel, þrátt fyrir allan vindinn og snjóstorminn, í því að halda vel utan um framvindu myndarinnar,“ skrifar hann.

„Síðustu ár hefur Kormákur skipst á að gera myndir á Íslandi og Hollywood-hasarmyndir með Mark Wahlberg. Síðasta myndin sem hann gerði í heimalandinu, Djúpið, var einnig sannsöguleg og snerist um líf og dauða. Everest er stærri og flóknari en það sem hann hefur áður gert og kemur honum yfir á annað stig sem leikstjóri.“