Epískur Darksiders II – Tölvuleikjarýni

Kvikmynda – og tölvuleikjavefsíðan Nörd norðursins birtir hér að neðan í samstarfi við kvikmyndir.is nýja tölvuleikjarýni. Greinin fjallar um tölvuleikinn Darksiders II.

Lesið dóminn hér fyrir neðan, horfið á stikluna og skrifið athugasemdir í spjallkerfið:

Darksiders II – Þriðju persónu ævintýraleikur

Darksiders 2 er þriðju persónu ævintýraleikur í anda God of War leikjaseríunnar sem notast við kerfi sem sjást í hlutverkaleikjum. Leikurinn er framleiddur af Vigil Games og gefinn út af THQ og er framhald fyrri leiks með sama nafni.

Sjáðu stiklu úr leiknum hér að neðan:

Um leikinn

Maður spilar sem Dauðinn, einn af fjórum riddaranna úr Opinberunarbókinni, sem ætlar
sér að þurrka út glæpi bróður síns, Stríðs, og endurvekja mannkynið. Framleiðendur leiksins hafa tekið sér bessaleyfi varðandi nöfn riddaranna en þar sem lítið er skrifað um
þá í Opinberun Jóhannesar hafa þeir ansi frjálsar hendur hvert þeir vilja fara með þessar persónur og sögu.

Í leit sinni þarf Dauðinn að ferðast til nokkurra ólíkra heima sem eru misstórir og hjálpa fólki við að finna vissa hluti til þess að komast áfram í leiknum. Það er ekkert grín að taka að sér að spila þennan leik þar sem aðeins aðalhlutann af leiknum tekur um 40 tíma að klára og ef maður vill taka hliðarspor, finna og gera allt annað sem hægt er að gera, þá er örugglega hægt að bæta við 20 – 40 tímum til viðbótar.


Spilun

Maður byggir sig upp í gegnum leikinn og getur breytt útliti og eiginleikum sínum. Eftir því sem maður spilar leikinn lengur og klárar ákveðin svæði eða verkefni vinnur maður sér inn reynslustig sem að endingu færir manni færnisstig sem er hægt að nota til að leysa úr læðingi galdra til að hjálpa manni að sigrast á óvinum sínum.Til að byrja með er frekar auðvelt að hakka sig í gegnum leikinn en þegar líður á þá þarf maður virkilega að hugsa um hvaða vopn og brynjur maður notar.

Það er nóg um bardaga og þrautir í leiknum en þetta getur stundum orðið þreytt þar sem sama formúlan er notuð aftur og aftur. Maður kemur að svæði sem lokast allt í kringum mann og maður þarf að verjast mörgum óvinum, þetta gerist svo oft að maður sér þetta langar leiðir. Þegar maður heldur að maður sé kominn aðeins nær áætlunarverki sínu þá þarf maður að finna fleiri hluti sem eru oft í þrennum. Þrautir eru svipaðar en það er þó aðeins kryddað uppá þetta með því bæta við samvinnu hér og þar, hvort sem það þýðir að stóla á aðra eða sjálfan sig.

Ég varð var við nokkrar villur hér og þar, en ekkert sem ergði mig mikið. Eitt skipti datt ég niður fyrir borðið þegar ég var að synda nálægt botninum á einu svæði, sem betur fer dó ég á endanum og fékk að endurræsa leikinn á nálægum sjálfvistunarpunkti (sem leikurinn gerir oft og það er mikill léttir ef maður deyr). Leikurinn fraus tvisvar í sama borðinu, þegar maður er á Jörðinni, sem mér fannst frekar skrítið. Svo kom af og til að leikurinn hökti, oft ef mikið var að gerast eða maður hreyfði sjónarhornið hratt. Þrátt fyrir þessa hnökra þá skemmdi það ekki fyrir mér leikinn.

Samantekt

Að komast í gegnum þennan leik tekur sinn tíma en það er alltaf eitthvað hægt að gera eða skoða sig um. Stundum getur þetta verið þreytandi, að vera sífellt að leita að einhverri þrennu til að komast áfram en annars væri leikurinn frekar stuttur ef maður þyrfti ekki að gera alla þessa hluti. Það er þó reynt að hrista upp í hlutunum með breytingum sem þarfnast samvinnu og smá hugsun milli bardaga. Ef þú vilt spila epískan leik þá er auðvelt að mæla með Darksiders 2 þrátt fyrir nokkra hnökra hér og þar.

Einkunn: 8.0

Höfundur: Jósef Karl Gunnarsson.

Smelltu hér til að lesa ítarlegri gagnrýni um þennan leik á Nörd norðursins.