Enn eitt upphaf Köngulóarmannsins vel heppnað

Í stuttu máli er þriðja upphaf Köngulóarmannsins á fimmtán árum gríðarlega vel heppnuð skemmtun og gefur lofandi fyrirheit um frekari ævintýri.

Nýtt upphaf Köngulóarmannsins fékk smá þjófstart í „Captain America: Civil War“ á síðasta ári og í „Spider-Man: Homecoming“ er endurræsingin fullkláruð og hann orðinn hluti af Avengers heiminum sem fer sífellt stækkandi. Blessunarlega er hlaupið yfir kaflann þegar Peter Parker (Tom Holland) er bitinn af geislavirkri könguló og ofurhetjan er strax tilbúin í slaginn.

Peter snýr aftur heim í hversdagsleikann eftir að hafa verið fenginn til liðs við Avengers gengið og fær að halda búningnum sem Tony Stark/Járnmaðurinn (Robert Downey Jr.) lét  hann hafa. Peter leggur allt í sölurnar til að ganga í augun á Tony og sýna að hann eigi fullt erindi sem fullgildur meðlimur hinna ofurhetjanna ásamt því að sinna námi, reyna að ganga í augun á Michelle (Zendaya) sem er samnemandi hans og halda því leyndu að hann sé í raun og veru Köngulóarmaðurinn. Á vegi hans verður byggingaverktakinn Adrian Toomes (Michael Keaton) sem er í raun Hrægammurinn (Vulture) og hyggst hann gera útaf við Köngulóarmanninn sem er að eyðileggja hvert ráðabrugg hans á fætur öðru.

„Spider-Man: Homecoming“ er fyrst og fremst ákaflega skemmtileg ofurhetjumynd og skilur eftir nógu mikið af lausum endum fyrir væntanleg framhöld sem án efa koma fyrr en síðar. Vissulega er hægt að hnýta í þónokkra hluti eins og mjög svo tilviljunarkennda atburðarrás sem knýr söguna áfram  en hrósa ber efnistökunum og myndin nær góðu jafnvægi á milli drepfyndinna atriða, mannlega þáttarins sem skiptir talsverðu máli þótt um ofurhetjumynd sé að ræða og mjög tilkomumikilla hasaratriða sem eru í senn gríðarlega flott og ná upp talsverðri spennu. Leikarararnir eru líka mjög góðir. Tom Holland er einstaklega viðkunnanlegur og sýnir fín tilþrif þegar þörf er á smá dramatík en gríntaktarnir eru einnig fyrsta flokks. Michael Keaton sýnir enn og aftur hvers hann er megnugur og persóna hans fær nægan tíma á tjaldinu og er vel skrifuð og áhugaverð. Marisa Tomei er alltaf skemmtileg og Downey Jr. eitursvalur sem fyrr.

Köngulóarmaðurinn er skemmtileg viðbót í Avengers hópinn og í fínu lagi að hann fái enn eina upphafsmyndina þó svo að  „Spider-Man“ (2002) og „The Amazing Spider-Man“ (2012) hafi verið fínar á sinn hátt. Allar eiga þær það sameiginlegt að sýna mikilvægt þroskaferli Peters Parker þar sem hann uppgötvar að með miklum mætti fylgir mikil ábyrgð og búningurinn hefur ekki mikið að segja ef hann upplifir sig sem ekkert án hans. Einnig hefur persóna hans ávallt verið sú sem meðaljóninn hefur helst getað samsamað sig við (þegar um ofurhetjur er að ræða) þar sem góðverk hans eru oftar en ekki tekin sem sjálfsagður hlutur og Peter sjálfur glímir við ýmis hversdagsleg vandamál í einkalífinu sem tengjast óöryggi, ósjálfstæði og hreinni óheppni oft á tíðum. Skyldur hans setja iðulega strik í reikninginn hjá honum og dagleg tilvera verður að allsherjar basli þar sem hann á fullt í fangi með að halda öllum boltum á lofti. Margur meðaljóninn kannast nú við það.

Þetta nýja upphaf sleppir úr mörgu sem áhorfendur hafa tengt við Köngulóarmanninn í gegnum tíðina; t.a.m. er engin Daily Bugle fréttaveita sem Peter starfar hjá og þ.a.l. engin J. Jonah Jameson sem gerir lítið úr honum, enginn Harry Osbourne og baksagan um morðið á Ben frænda hans er rétt drepið á en sú lífsreynsla er það sem býr til ofurhetjuna og mótar siðareglur hans. Kannski munu óhjákvæmileg framhöld innihalda eitthvað af þessu.