Endurræsing Fantastic Four 2015

Búið er að ákveða frumsýningardag The Fantastic Four vestanhafs. Hún kemur í bíó 6. mars 2015 á vegum framleiðandans 20th Century Fox.

Josh Trank, maðurinn á bak við ofurhetjumyndina Chronicles, hefur verið orðaður við leikstjórastólinn.

Marvel-myndin þykir koma ansi snemma árs miðað við hversu dýr hún er. Líkleg ástæða er sú að verið er að forðast árekstur við sumarbomburnar Avengers 2, Justice League, og Star Wars: Episode 7 sem koma út sama ár.

Um er að ræða endurræsingu á Fantastic Four-myndunum og ætlar 20th Century Fox sér stóra hluti með þessa nýju útgáfu. Nýtt leikaralið verður í hlutverkum Invisible Woman, The Thing, Mister Fantastic og The Human Torch.

Tvær Fantastic Four-myndir hafa komið út. Sú síðari, Rise of the Silver Surfer, kom út 2007 við dræmar undirtektir. Með aðalhlutverk fóru Chris Evans, Jessica Alba og Ioan Gruffudd.