Ekki gott lúkk, Zemeckis

Strætó-útgáfan:
Þessi saga Roald Dahl býður upp á spennandi útfærslu, en hér er því miður um áhrifalitla útgáfu að ræða. The Witches frá Robert Zemeckies er flækt í tónaglundroða og sjónarspilið er skuggalega lítið fagurt.

Bökkum nú aðeins…


Eitthvað fór alvarlega úrskeiðis í þessari nálgun á Nornunum.

Sú var tíðin að Robert Zemeckis – leikstjóri, handritshöfundur og ofurframleiðandi með meiru – var álitinn einn af þeim betri eða í það minnsta einn af þeim efnilegustu í vestræna afþreyingargeiranum. Hann ruddi vegi, þótti beinskeyttur og var yfirleitt með góðan húmor, góða tilfinningu fyrir flæði sögunnar, bauð upp á persónustýrt drama og virka ævintýraþrá.

En þetta á því miður allt við um verk hans fyrir síðustu aldamót, en eftir það tók við áhersla á tölvuteikningar, svokallað „motion capture“ blæti. 

Zemeckis fór hægt og rólega að æfa sig með rándýru leikföngin sín. Ekki voru tilraunirnar allar slæmar en titlar eins og The Polar Express, Welcome to Marwen og fertugasta Christmas Carol aðlögunin lentu því miður allar í skammarkróknum. Því getur verið erfitt að trúa því að Zemeckis, maðurinn á bak við Back to the Future, Roger Rabbit, Death Becomes Her, Contact og Cast Away, sé kominn í hóp þeirra sem ekki einu sinni tekst að eltast við skugga eigin betra sjálfs.

2020-útgáfan af The Witches er því miður ákveðinn lágpunktur þess að Zemeckis hefur gjörsamlega misst alla töfra með aldrinum. Þetta er saga sem býður upp á truflandi en um leið tennta barnahrollvekju. Undir stjórn Zemeckis verður úr þessari sögu ævintýri þar sem ætlunarverkið tekst ekki og niðurstaðan er kolröng. 

Andrúmsloftið er til að mynda steindautt. Það er vel pússað á þann silkimjúka Hollywood-máta sem flassar framleiðslupeningnum og sýnir góð vinnubrögð aðstandenda en allan brodd í innihaldinu vantar.

Til að útskýra þá er undirritaður mikill Roald Dahl aðdáandi. Mér finnst The Witches ekki vera með betri bókum höfundarins, en það má vel sjá þarna góð tækifæri til að mjólka drungann og allt það súra í efninu. Þetta tókst akkúrat svo prýðisvel í myndinni frá Nicolas Roeg.

Þá verður ekkert eftir að sýningartíma loknum annað en aum nýting á fínum leikurum og kristaltær kennsla í því hvernig 30 ára gömul kvikmynd, unnin upp úr sama efnivið, getur litið þrefalt betur út heldur en þessi sem er glæný úr kassanum, nánast að öllu mögulegu leyti. Brellurnar eru hér oft á tíðum svo ýktar og ónáttúrulegar innan um leikna umhverfið að trúlega hefði Zemeckis einfaldlega átt að gera teiknimynd úr þessu öllu. 

Það er ekki galin ákvörðun að ráða Anne Hathaway í hlutverkið sem Anjelica Huston gerði rétt um bil ótoppanlegt. Hathaway leikur sér með hverja línu, í hverjum ramma eins og hún njóti einskis betur en að vera yfirdrifin og illgjörn nornadrottning. 

Það sem vegur þó á móti er sú staðreynd að leiðinlega björt umgjörð, misheppnuð tónlistarstef, forljótar tæknibrellur og flatt flæði í klippingu – eða almennur laus taumur leikstjóra á áðurnefndu andrúmslofti sögunnar – getur svipstundis eyðilagt allt. Þarna fær Hathaway einmitt býsna vondan díl. Hönnun þessa skúrks og nornanna almennt er í fínu lagi, leikurinn selur andúðina en fær að kenna á því í gegnum misreiknaða tón andrúmsloftsins.

Það kemur enginn beinlínis vel út úr þessari mynd, en það sést alveg að fólkið reynir og á sína spretti. Það þarf virkilega mikið til að Octavia Spencer verði nokkurn tímann leiðinleg áhorfs. Sem taugaharða, nafnlausa amman réttlætir Spencer alveg ráðninguna. Hún hefur kjaftinn og mýktina sem hefði gagnast betur í mynd með einhvern lifandi púls.

Jahzir Kadeem Bruno er stórfínn sem ónefndi strákurinn (nefndur Luke í síðustu mynd en ótilgreindur hér, líkt og í bókinni) áður en hann leysist upp í tölvubrellumúsina en óskaplega passar það illa að notast við rödd Chris Rock í hlutverki sögumanns. Rock rammar allt inn frá sjónarhorni Luke á fullorðinsárum og maður kemst ekki hjá að bera þetta saman við þættina Everybody Hates Chris, þar sem Rock var einnig sögumaður. Það er alls ekki gott lúkk. 

Upprunalega Witches-myndin leyfði sér að laga ýmislegt til í sinni frásögn í samanburði við bókina, ekki alltaf með góðum árangri (besta dæmið þar væri sennilega snyrtilegi hamingjuendirinn sem var límdur á eftir kvartanir áhorfenda á prufusýningum). Sem kvikmyndaaðlögun má nýja Witches þó eiga það að hún prufukeyrir ýmislegt á sinn eigin hátt en er í heildina meira trú texta Dahls. 

Tilraun er gerð til að innsigla og styrkja tengsl stráksins við ömmu sína áður en söguþráðurinn hrekkur í gang. Zemeckis hefur sömuleiðis breytt sögusviði myndarinnar úr Englandi „samtímans“ í Bandaríkin á sjöunda áratugnum. Óumdeilanlega gáfust þarna einhver tækifæri til að spila með fordóma þess tíma eða spila eitthvað með þemun út frá sögubreytingunni. Virðist þetta þó vera aðallega bara breyting sem gerð var breytinganna vegna.

Vel má vera að nýja myndin eigi eftir að svínvirka á útvalinn hóp yngri áhorfenda, en sennilega var tilraun Roeg’s þeim mun aðdáunarverðari fyrir það eitt að geta bæði skelft fullorðna og verið fyrirtaks martraðarfóður fyrir yngri hópana. Allur drungi og óhugnaður sogast hreinlega út af krafti þegar hálfkaraðar tölvubrellur tröllríða jafn miklu og hér er gert, og leikstjórinn valhoppar um í öllu sem á að heita tónn heildarsvipsins. Ef Zemeckis setti sér það markmið að gera lifandi skrípóteiknimynd í bland við tengslasögu um sorg, með glefsum af mannlegu drama inn á milli, þá tókst honum ætlunarverkið.