Edgar Wright leikstýrir Night Stalker

Disney hafa ráðið Edgar Wright til þess að leikstýra myndinni The Night Stalker, sem er endurgerð samnefndrar myndar og sjónvarpsþátta frá áttunda áratug síðustu aldar.

The Night Stalker fjallar um rannsóknarfréttamanninn Carl Kolchak og ævintýri hans. Kolchak er þekktur fyrir að lenda í undarlegum aðstæðum þar sem yfirnáttúruleg fyrirbæri koma við sögu. Upprunalega myndin er sjónvarpsmynd frá árinu 1972 og fjallar um rannsókn Kolchak á morði á hótelherbergi þar sem hann taldi að morðinginn væri vampíra. Gerð var framhaldsmynd sem kom út ári síðar og sjónvarpsþættir sem báru nafnið Kolchak: The Night Stalker.

Sjálfur Johnny Depp mun framleiða myndina en orðrómar eru um að hann muni taka að sér aðalhlutverk myndarinnar, þó hefur ekkert verið staðfest að svo stöddu. Enn sem komið er hefur ekki verið ráðinn handritshöfundur fyrir The Night Stalker þannig að hlutirnir eru á algeru byrjunarstigi. Ljóst er þó að hér gæti verið ágætis moli á ferð fyrst Wright og Johnny Depp hafa trú á henni.

Wright er hvað þekktastur fyrir að hafa leikstýrt myndum eins og Scott Pilgrim vs. the World, Hot Fuzz og Shaun of the Dead. Hann skrifaði einnig handrit Tinna-myndarinnar og framleiddi Attack the Block.