Eckhart minnist Ledger

the-dark-knight-two-face-the-jokerLeikarinn Heath Ledger vakti fyrst athygli fyrir leik í myndinni 10 Things I Hate About You en öðlaðist heimsfrægð fyrir aðalhlutverk í Brokeback Mountain og var tilnefndur til Óskarsverðlauna og fjölmargra annarra verðlauna fyrir leik sinn í henni árið 2005.

Það var síðan ekki fyrr en hann lék The Joker í kvikmyndinni The Dark Knight sem hann komst á annað stig í leiklistinni og öðlaðist þar með gífurlega virðingu áhorfenda og allra þeirra sem koma að kvikmyndagerð. Þeir sem unnu með honum í The Dark Knight hafa löngum talað um framúrskarandi vinnu hans í myndinni. Nokkrum vikum fyrir frumsýningu The Dark Knight þá lést Ledger af völdum of stórs lyfjaskammts, aðeins 28 ára að aldri.

Aaron Eckhart lék Harvey Dent/Two Face í myndinni og var svo heppinn að leika í einni senu á móti Ledger. Hér fyrir neðan má sjá brot úr nýju viðtali við Larry King þar sem hann ræðir um þá senu, sem átti sér stað á spítala í Gotham-borg.