Dularfull mynd þrefalds Óskarshafa fær nafn

Síðast þegar þrefaldi Óskarsverðlaunahafinn Daniel Day-Lewis og leikstjórinn Paul Thomas Anderson unnu saman, þá var uppskeran ríkuleg, en kvikmynd þeirra, There Will Be Blood, skilaði Day-Lewis öðrum Óskarsverðlaunum hans ( hann fékk þriðju verðlaunin fyrir Lincoln ) og frasinn „I drink your milkshake“, varð ódauðlegur.

Þessir tveir eru nú aftur saman á ferð með nýja kvikmynd, sem sveipuð hefur verið svo mikilli dulúð að nafninu hefur verið haldið leyndu … þar til nú. Myndin hefur nú fengið opinberan titil: Phantom Thread. 

Að auki er nú búið að ljóstra upp söguþræði myndarinnar sem er eitthvað á þessa leið: Myndin er drama sem gerist á sjötta áratug síðustu aldar í Lundúnum. Hún segir frá lífinu bakvið tjöldin hjá kjólagerðarmanni sem sníður föt fyrir aðalinn og kóngafólkið.

Ásamt Day-Lewis fara Lesley Manville og Vicky Krieps með stór hlutverk.

Auk þess sem kvikmyndin er með seinni skipunum hvað varðar mögulega Óskarstilnefningu fyrir næstu Óskarsverðlaunahátíð, þá gæti hún orðið síðasta kvikmyndin sem Day-Lewis leikur í, en hann tilkynnti í júní sl. að hann ætlaði að draga sig í hlé frá leikstörfum.

Myndin kemur í bíó hér á Íslandi 2. febrúar nk. en erlendis verður hún frumsýnd 25. desember.