Dreamworks með fullt í bígerð!

Titillinn segir nú eiginlega allt sem þarf; DreamWorks animation gerðu nýlega samning um dreifingu mynda sinna við 20th Century Fox og í kjölfarið rúlluðu út dagskránni yfir væntanlegar teiknimyndir næstu fjögur árin. Þarna kræla tvær yfirvofandi blóðmjólkanir á farsælum verkefnum frá fyrirtækinu, en að mestu leiti eru þetta annars glænýjar myndir:

Fyrst á dagskrá (á eftir goðsagnarpersónu orgíunni sem er Rise of the Guardians, auðvitað) er steinaldarævintýrið The Croods þann 22. mars 2013. Hellisbúinn Grug (Nicolas Cage) þarf skyndilega að flytja fjölskyldu sína þvert yfir hættuleg lönd í leit að nýju heimili, eftir að jarðskjálfti eyðileggur allt sem þau þekkja. Á leiðinni fellur dóttir Grug, Eep (Emma Stone), fyrir flakkaranum Guy (Ryan Reynolds) sem kynnir fjölskyldunni fyrir nýjum og framandi hugmyndum; eins og að nota heilann skynsamlega.

Fjórum mánuðum síðar, eða 19. júlí til að vera nákvæmur, kemur sniglamyndin Turbo. Í stíl við Ratatouille, þá er Turbo snigill sem dreymir um eitthvað sem er í algjörri þversögn við líferni hans: hraða. Hann vill ekkert heitar en að fylgja í fótspor hetju sinnar, Guy Cagne, sem vann Indianapolis 500 keppnina miklu fimm sinnum. Eftir undarlegt slys er Turbo gæddur eiginleika ofurhraða og leggur þá upp í ferð til að skora á það besta sem Indianapolis keppin hefur upp á að bjóða.

Í byrjun nóvembers sama ár kemur Mr. Peabody & Sherman, tölvuendurgerð DreamWorks á teiknimyndapersónunum samnefndu sem voru uppi á sjötta og sjöunda áratugnum. Ty Burrell talar fyrir Mr. Peabody, talandi hund sem er á sama tíma gáfaðasta vera heimsins, en honum fylgir ávallt drengurinn Sherman (Max Charles). Eftir að þeir nota tímavélina sína óheppilega kemur upp sú óendanlega mikilvæga þörf til að leiðrétta tímansrás áður en alheimurinn fargast.

Þann 14. mars 2014 kemur síðan Me and My Shadow, sem mun notast við samblöndu af tölvutækni og hand- teiknuðum stíl. Hún fjallar um pirraða skuggann Shadow Stan sem er orðinn meira en þreyttur á meistara sínum, Stanley Grubb; leiðinlegasta manneskja sem fyrirfinnst. Samkvæmt lögum skugganna „leiða þau, við fyljgum“, en einn daginn ákveður Shadow Stan að brjóta þau lög og tekur stjórnina yfir herra Grubb.

20. júlí fáum við svo fyrsta framhald dagskráarinnar, How to Train Your Dragon 2. Allar raddir fyrstu myndarinnar snúa aftur í ævintýri sem sér víkingana skoða ókunn lönd með aðstoð (spoiler!) drekanna. Þar finna þeir án efa nýjar menningar og nýjar tegundir dreka.

Aðlögun barnabókarinnar The True Meaning of Smekday, titluð Happy Smekday! kemur 26. nóvember og fylgir hinni ungu Gratuity Tucci (Rihanna) sem þarf að komast ein af eftir að geimverurnar Boov taka yfir Jörðina og ræna móður hennar. Boov krefjast síðar að allt mannkynið flytji til Flórída, en Gratuity velur að ferðast þangað með bíl. Á leiðinni vingast hún við Boov-inn J.Lo (Jim Parsons) og saman leggja þau upp í ævintýralegt ferðalag um Bandaríkin.

Restina fylla verkefni á grunnstigi: Teiknimynd um tröllfígúrurnar vinsælu, sem heitir í augnabikinu bara Trolls, kemur 5. júní 2015. Seth Rogen talar fyrir draug í B.O.O.: Bureau of Otherworldly Operations sem er væntanleg 6. nóvember. Fyrsti Bollywood-söngleikur DreamWorks, Mumbai Musical, sýnir okkur Indland í gegnum augu apa og kemur 19. desember. Að lokum fylla þristarnir árið 2016, en 18. mars kemur Kung Fu Panda 3 og síðan 18. júní How to Train Your Dragon 3.