Steinaldarfjölskylda í frost

Ef þú hefur verið að bíða í ofvæni eftir framhaldi á ævintýrum steinaldarfjölskyldunnar í teiknimyndinni skemmtilegu The Croods frá árinu 2013, þá eru hér slæmar fréttir fyrir þig; DreamWorks Animation og móðurfélagið Universal, hafa hætt við The Croods 2.

croods

The Croods sló í gegn á sínum tíma, og þénaði meira en 587 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim. Gerð framhaldsmyndarinnar hefur gengið heldur brösuglega, samkvæmt Variety, og frumsýningardegi, sem upphaflega átti að vera á næsta ári, hafði þegar verið frestað til ársins 2018.

Heimildir herma að The Croods 2 sé ekki skorin niður vegna yfirtöku Universal á DreamWorks Animation, heldur hafi ákvörðunin verið tekin fyrir löngu síðan, en ekki sé greint frá þessu fyrr en nú.

Framhaldsmyndir annarra DreamWorks Animation mynda eru enn sagðar vera á teikniborðinu, þar á meðal fimmta Shrek myndin og þriðja How to Train Your Dragon.

Fyrir aðdáendur The Croods þá má horfa á nýlegar The Croods teiknimyndir á Netflix.