Leikstjórinn David Cronenberg, sem flestir ættu vonandi að kannast við, var í viðtali við ShockTillYouDrop og upplóstraði þar að tvö verkefni sem hafa aðeins verið orðrómar í nokkur ár, gætu reynst raunveruleg. Hann byrjaði þó á því að neita þeim orðrómi að hann væri að endurgera spænsku myndina Timecrimes.
Það fyrsta er ný mynd í hinni frægu The Fly kvikmyndaseríu, en Cronenberg endurgerði einmitt The Fly undir sama titli árið 1986 og er hún ein af þessum fáu endurgerðum sem fólk getur sagt að sé án efa betri. Cronenberg er búinn að skrifa handrit að nýju myndinni fyrir 20th Century Fox og vill hann meina að hún sé meira framhald en endurgerð, en síðan 2009 hefur sá orðrómur staðið yfir að hann væri að endurgera myndina sína frægu. Það er einnig vert að nefna að árið 1989 kom út formlegt framhald að The Fly en ekki er vitað hvort Cronenberg sé að skrifa þriðju myndina í seríunni eða endurgera þá seinni.
Síðari orðrómurinn tengist glæpamynd Cronenbergs frá árinu 2007, Eastern Promises. Í ágúst síðastliðnum staðfesti leikarinn Vincent Cassel að framhald væri í vinnslu og ýtti Cronenberg frekar undir það: „Steve Knight (handritshöfundur fyrstu myndarinnar) skrifaði ‘Eastern Promises 2’ og er að skrifa seinni drögin að handritinu. Focus Features hefur áhuga á því og við munum bara sjá hvað setur. „
Cronenberg kláraði nýlega vinnslu á nýjustu mynd sinni, A Dangerous Method, og er að vinna að annarri, Cosmopolis; fyrsta myndin byggð á handriti eftir Cronenberg í 12 ár, en handritið er byggt á bók undir sama titli.