The Fly (1986)

Kæru lesendur, það er föstudagur í dag. Þetta er mín fjórða umfjöllun, og mun ég halda áfram að fjalla um költ myndir, indí myndir, B-myndir, ódýrar myndir og almennt lítið þekktar myndir á hverjum föstudegi. Ég vona að með þessum fasta lið víkkið þið kvikmyndasmekkinn ykkar og/eða fræðist um myndir sem mér langar til að fræða fólk um. Stundum rita ég um myndir sem mér finnst lélegar, en sú þörf að láta fólk vita af myndinni er þó til staðar, rétt eins og ef mér þykir myndin góð.

                                          The Fly

The Fly fjallar almennt séð um vísindamanninn Seth Brundle (Jeff Goldblum) sem hefur í samstarfi við aðra vísindamenn búið til þrjá, á sinn hátt klefa, sem gegna því hlutverki að færa hluti og lífverur á milli staða. Eitt kvöldið fer ástkona hans, Veronica (Geena Davis) út til að hitta fyrrverandi kærasta sinn, Stathis Borans (John Getz) í staðinn fyrir að borða kvöldmat og hafa það notalegt með Seth. Seth Brundle dettur þá í afbrýðissemi, og ákveður að fara í einn klefann og færa sig á milli staða þrátt fyrir mikla áhættu. Í þessu tilviki fór fluga með honum í klefann, og klefinn skellti þeim saman í eina lífveru í staðinn fyrir að færa Seth og fluguna á milli staða í tvennu lagi. Seth Brundle breytist því í flugu, eða svokallaða Brundlefly, sem er blanda af honum sjálfum og flugunni.

Söguþráður myndarinnar er gríðarlega góður, maður fylgist vel með og öll atriði myndarinnar eiga sinn stað í söguþræðinum. Staðsetning myndarinnar er mjög skemmtileg. the-fly-posterÍbúðin sem Seth Brundle býr í er mjög flott, og er partur af þessum vísindafnyk sem maður finnur út alla myndina. Klefarnir standa á sínum stöðum í íbúðinni, og svo er píanó sem Seth handleikur. Allir þessir munir setja góðan anda í íbúðina. Myndin verður dramatískari eftir því sem íbúðin fyllist meira og meira af rusli, því sú breyting hefur í för með sér töluverða breytingu á Seth Brundle, sem er jú að breytast í tegund af flugu eftir misheppnaða tilraun. Lýsing myndarinnar er stórkostleg. Myndin er dimm og drungaleg, og taka allir eftir því, sama hversu mikill áhugamaður þú ert. Leikararnir eru frábærir í þessari mynd. Seth Brundle er að mínu mati besta hlutverk sem Jeff Goldblum hefur tekið að sér, og Geena Davis er frábær sömuleiðis. Leikstjórnin (David Cronenberg) er rosalega góð. Maður tekur vel eftir henni og er hún með þeim betri. Myndin er flott tekin upp, og nær öllum atriðum mjög vel. Upptakan hækkar dramatík atriðanna að mínu mati, hún er það sérstök. Tæknibrellurnar eru engin smá smíði. Útlitsbreytingar Seth Brundle standa þar hæst. Klippingin er til fyrirmyndar, og tónlistin er klassísk, virkilega.

Ég gjörsamlega elska þessa mynd, og hef því séð hana nokkrum sinnum. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari mynd. Þetta er ein af mínum uppáhalds. Þessi mynd er ekta ’80s, virkilega ekta. Fólk, notið helgina í áhorf, og skreppið í vídeóheima og kaupið DVD á 500 kall stykkið.