Dark of the Moon stefnir í 180 milljónir

Vélmennatryllirinn Transformers: Dark of the Moon fékk góða aðsókn á þriðja sýningardegi í Bandaríkjunum og Kanada, og þénaði um það bil 32,9 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt tölum frá Paramount Pictures sem framleiðir myndina.
Þessi árangur þýðir að myndin var eftir föstudaginn komin í 97,6 milljónir dala alls í tekjur, en myndin var forsýnd sl. þriðjudag og svo frumsýnd strax í kjölfarið á miðvikudag.
Eftir að aðsókn dróst aðeins saman á fimmtudaginn,þá virðist myndin aftur á góðri leið með að þéna 180 milljónir dala á fyrstu 6,5 dögunum í sýningum. Myndin kostaði 200 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu.
Þessi þriðja mynd í myndaflokknum er samt enn lagt frá ótrúlegum aðsóknartölum myndar númer tvö fyrir sama tímabil í sýningum, en myndin, Revenge of the Fallen, var búin að þéna 127,9 milljónir dala á fyrstu þremur dögum í sýningum.

Dark of the Moon hefur samkvæmt Reuters fréttastofunni þénað meira en 60% tekna sinna af þrívíddarsýningum, sem eru góðar fréttir fyrir 3D myndirnar, sem hafa, samkvæmt Reuters, valdið vonbrigðum á síðustu mánuðum í miðasölunni í Bandaríkjunum.

Á föstudag var önnur mynd, ekki eins brelluhlaðin, frumsýnd, en það var rómantísk gamanmynd með Óskarsverðlaunaleikurunum og sjarmaparinu, Tom Hanks og Juliu Roberts, en sú mynd þénaði 4 milljónir dala á föstudaginn, sem gefur fyrirheit um að myndin nái lægri mörkum væntinga framleiðandans fyrir fyrstu fjóra dagana í sýningu, sem eru 15 milljónir Bandaríkjadala í tekjur.

Myndin, sem heitir Larry Crowne, kostaði 30 milljónir dala í framleiðslu.

Julia og Tom ánægð á Vespunni.