El Mayimbe hjá fréttaveitunni Latino Review segist hafa heimildir fyrir því að Christian Bale muni enn á ný klæðast Batman skikkjunni og leika Batman í nýju Justice League myndinni, sem verið hefur í undirbúningi nú um þónokkurt skeið.
Mayimbe segir að Christopher Nolan, leikstjóri The Dark Knight þríleiksins, sé nú orðinn yfirmaður allra mála hjá Warner Bros kvikmyndaverinu er snúa að ofurhetjumyndum, og þar með muni hann verða allt í öllu í því er snýr að Justice League myndinni, svipað og hlutverk hans er sem framleiðandi í nýju Superman myndinni, Man of Steel, sem væntanleg er í sumar.
Bale sagði við Empire tímaritið í fyrra að hann væri til í að leika Batman á nýjan leik ef Cristopher Nolan myndi sýna honum gott handrit.
Henry Cavill, sem leikur Superman í Man of Steel, myndi snúa aftur sem Superman og leika á móti Christian Bale í Justice Legue.
Skoðið myndbandið hér fyrir ofan til að heyra nánar hvað El Mayimbe hefur að segja um málið.
Vefsíðan Batman-News.com segir að Latino Review hafi í gegnum tíðina reynst vera góð upplýsingaveita er kemur að fréttum frá Warner Bros. Til dæmis hafi þeir verið fyrstir til að segja frá því Heath Ledger hefði verið ráðinn í hlutverk Jókersins í The Dark Knight og að Brandon Routh yrði Superman í Supeman Returns frá árinu 2006.

