Catching Fire finnur leikstjóra

Óvissunni um hver muni leikstýra Hunger Games framhaldinu Catching Fire fer bráðum að linna, en sagt er að Lionsgate hafi í snarhasti boðið Francis Lawrence starfið. Síðan að Gary Ross sagði skilið við seríuna í síðustu viku sökum tímaskorts hefur fyrirtækið leitað að leikstjóra sem gæti hoppað í starfið ekki seinna en núna og klárað tökur fyrir árslok. Ásamt Lawrence voru leikstjórarnir Bennet Miller, Alfonso Cuarón, David Cronenberg, Alejandro González Iñárritu, Tomas Alfedson, Cary Fukunaga, og Duncan Jones nefndir á óskalista myndversins. Þessi nafnaruna hefði reyndar getað verið óskalisti fyrir hvaða verkefni sem er – hefðu þeir bara bætt við þeim Spielberg, Cameron og Jackson.

Francis Lawrence (ekkert skyldur aðalleikkonunni Jennifer Lawrence) byrjaði í tónlistarmyndbandabransanum, en á að baki tvær tölvubrellumyndir, þær Constanine og I Am Legend, og svo rómantísku dramamyndina Water For Elephants. Allar þóttu þær heppnast sæmiega, þó engin þeirra hafi beint risið upp úr meðlamennskunni. Það er samt einfalt að sjá hvað Lionsgate er að fara með það að bjóða honum starfið, en bæði tæknibrellureynslan og svo tilfinningavinnan ættu að nýtast honum við Catching Fire. Plús það að hann var með alveg opna dagskrá.

Þetta getur ennþá breyst – Lawrence er ekki búinn að taka starfinu – en hvernig myndi aðdáendum lítast á að hann tæki við taumunum á Hunger Games seríunni?