Cage til Kína með Christensen

Bandaríski leikarinn vinsæli Nicolas Cage slær ekki slöku við frekar en fyrri daginn þegar kemur að gerð ævintýramynda. Vefmiðillinn The Wrap greinir nú frá því að Cage muni leika í myndinni Outcast sem gerist á tíundu öld í Kína.

Meðleikari Cage verður samkvæmt sömu heimildum Hayden Christensen, sem fyrst kom fram á sjónarsviðið í Star Wars forleiknum sem Anakin Skywalker.

Framleiðslukostnaður myndarinnar er áætlaður 25 milljónir Bandaríkjadala, en myndin fjallar um stríðsmann sem reynir að öðlast frelsi með því að bjarga prinsessu.

James Dormer skrifar handritið, en hann hefur áður skrifað handrit að sjónvarpsþáttunum Spooks, meðal annars.

Outcast er þó ekki eina verkefnið sem er framundan hjá Cage. Hann hefur nú þegar skrifað undir samning um að leika í myndunum I am Wrath og Joe. Ennfremur talar hann inn á DreamWorks teiknimyndina The Croods og kemur einnig við sögu sem Big Daddy í Kick-Ass 2.

Christensen er líka með ýmislegt á prjónunum, eins til dæmis myndina The Diplomat.