Nicolas Cage er Nick Cage

Bandaríski leikarinn Nicolas Cage á fjölda aðdáenda hér á Íslandi eins og út um allan heim, enda er Cage afar skemmtilegur karakter sem tekur oftar en ekki að sér mjög áhugaverð hlutverk. Í dag kemur nýjasta kvikmynd hans í bíó sem heitir hvorki meira né minna en The Unbearable Weight of Massive Talent. Þar er vísað beint til leikarans sem túlkar sjálfan sig í kvikmyndinni.

Söguþráðurinn er eitthvað á þessa leið: Skítblankur stórleikarinn Nicolas Cage samþykkir að koma fram gegn greiðslu einnar milljónar Bandaríkjadala í afmælisveislu milljarðamæringsins Javi Gutierrez á Mallorca, en Gutierrez er mikill aðdáandi leikarans. Þeir Cage og Gutierrez ná vel saman í veislunni en hlutirnir taka óvænta stefnu þegar Cage er ráðinn til að verða uppljóstrari fyrir leyniþjónustuna CIA til að fletta ofanaf Gutierrez, sem reynist vera forhertur glæpamaður. …

Með 88% einkunn

Myndin er þegar þetta er skrifað með 88% einkunn á Rotten Tomatoes kvikmyndasíðunni, sem er harla gott en um tíma var hún með 100% einkunn.

Í samtali við NBC fréttastofuna segir annar handritshöfundanna, Kevin Etten, að markmiðið með myndinni væri ekki að gera grín að Cage, heldur að hampa frjósömum ferli hans, en á ferilskrá Cage eru myndir eins og The Rock, Leaving Las Vegas, Face/Off, Captain Corelli´s Mandolin, Guarding Tess og The Wicker Man.

Heimskuleg ákvörðun sem gekk upp

Hvorki Etten né leikstjórinn Tom Gormican höfðu hitt leikarann áður en þeir sömdu myndina. „Við byrjuðum bara að semja – þetta var hrikalega heimskuleg ákvörðun sem á endanum gekk upp,“ sagði Gormican.

Handritið var skrifað árið 2018 og tóku skrifin 8 – 9 mánuði. Eftir það gengu þeir á milli kvikmyndavera til að reyna að fá handritið kvikmyndað. Að lokum beit Lionsgate á agnið. Þó með því skilyrði að Cage yrði með, annars yrði hætt við.

Ekki annar leikari

Etten og Gormican sögðu að þeir hefðu aldrei endurskrifað handritið með annan leikara í aðalhlutverkinu ef Cage hefði hafnað þátttöku. „Sagan gengur einungis upp með honum,“ segir Gormican.

Þeir segja að í myndinni séu bæði raunverulegir og skáldaðir hlutir um Cage. Til dæmis að hann á dóttur í myndinni, en í raunveruleikanum á hann tvo syni.

Cage var hikandi lengi vel og hafnaði því að taka þátt nokkrum sinnum áður en hann sagði já á endanum. Cage sagði að hann hefði haft áhyggjur af því að myndin yrði of mikið eins og grínskets með Andy Samberg í Saturday Night Live þar sem verið væri að gera grín að staðalmyndinni um Nic Cage.

Enginn vöðvi sagði já

Cage sagði þegar hann var að kynna myndina á kvikmyndahátíðinni South by Southwest að enginn vöðvi í líkama hans hafi sagt honum að leika neina útgáfu af sjálfum sér í kvikmyndinni. „Og af því að þetta skelfdi mig mjög mikið, þá vissi ég að ég yrði að gera þetta.“

Einnig sagði hann við sama tækifæri að hann væri að reyna að finna sínar dramatísku rætur og fara aftur að leika í sjálfstæðum kvikmyndum, sem væri hluti af hans uppruna.

Kyssir yngri útgáfu af sér

Í myndinni kyssir Cage yngra hliðarsjálf sitt, sem birtist nokkrum sinnum í myndinni. Það var að sögn Gormican hugmynd leikarans sjálfs. „Þetta er svona nokkuð sem þú færð aðeins hjá Nic. Hann kemur til þín og segir, „Tom, ég væri til í að fara í sleik við sjálfan mig.“

Pedro Pascal (Narcos, Game of Thrones, The Mandalorian), sem leikur Javi Gutierrez, er mikil Cage aðdáandi, rétt eins og persóna hans í myndinni. Hann segist við NBC hafa alist upp við að horfa á Nic Cage kvikmyndir. „Ég held, hvort sem ég vissi það eða ekki, að ég sé leikari útaf Nic Cage kvikmyndum. Þannig að það er næsta óraunverulegt að vera núna að leika með honum í kvikmynd.“

„Ég vissi meira um Nicolas Cage kvikmyndir en þeir,“ sagði Pascal um Gormican og Etten.

Reglulega helvíti fyndin

Pascal sagði þegar hann var beðinn um að segja hvernig myndin væri í þremur orðum að hann hún væri reglulega helvíti fyndin (Reallly Fucking Funny).

Aðrir leikarar í myndinni eru m.a. Tiffany Haddish, Ike Barinholtz, Neil Patrick Harris, Sharon Horgan, Lily Sheen og Jacob Scipio.