Cage að hætta kvikmyndaleik

Slæmar fréttir bárust nú í morgun frá Puerto Rico þar sem stórstjarnan og Óskarsverðlaunahafinn Nicolas Cage er við tökur nýjustu mynd sinni Primal.

Cage segist vera brátt á þeim tímapunkti í ferli sínum að hann sé reiðubúinn að snúa sér að leikstjórn.

Cage hefur leikið í um 100 kvikmyndum á litríkum ferlinum, en hann hófst árið 1982 með unglingamyndinni Fast Times at Ridgemont High.

„Þegar kemur að kvikmyndaframleiðslu og leikstjórn, þá, get ég svarað því játandi, að ég er að byrja aftur sjálfur að framleiða. Fyrirtæki mitt Saturn Films, tekur þátt í öllum kvikmyndum sem eru á dagskránni hjá mér núna. Og leikstjórn er eitthvað sem ég hlakka til að takast á við í framtíðinni. Ég er fyrst og fremst leikari og ég ætla að gera það næstu þrjú til fjögur árin og ( þá ) vil ég snúa mér meira að leikstjórn,“ segir Cage í samtali við The Blast.

Fyrirtæki Cage er með fimm verkefni í smíðum sem stendur; Between Worlds, Running with the Devil, Primal, A Score to Settle og The Croods 2, en allar myndirnar koma í bíó árið 2020.

Í síðasta mánuði ræddi Cage einnig við fjölmiðla og sagði þá að hann væri að reyna að lifa hófstilltara lífi, sem hentaði betur ferli hans í Hollywood.

Kick-Ass leikarinn, sem er í hinni frægu Coppola kvikmyndafjölskyldu, hefur samkvæmt heimildum keypt meira en eina tylft fasteigna, þar á meðal kastala í Bæjaralandi í Þýskalandi og tvær eyjar á Bahama. Þá er hann þekktur fyrir söfnunaráráttu sína en hann ku eiga risaeðluhauskúpu, samanskroppin mannshöfuð, og Lamborghini sportbíl sem eitt sinn var í eigu Íranskeisara. Cage er nú tilbúinn að slaka aðeins á þessum sérstaka lífsstíl og peningaeyðslu.

„Mig langar að fara betur með peninga, ég vona að mér takist það, því ég vil ná að verða langlífur,“ sagði hann við breska dagblaðið The Times. „Mig langar ekki að leika í Pizza Hut auglýsingum þegar ég verð 75 ára. Ég vil geta haldið áfram að vinna í kvikmyndum, hvort sem ég leik aðalhlutverk í myndum eða hvort sem þær fara beint á VOD, eða í kvikmyndahús.“