Þunglyndi í myndum

Those Who Fall have Wings var RIFF mynd gærdagsins á kvikmyndir.is. Myndin var sýnd í sal 1 í Bíó Paradís, en áhorfendur þar voru sárafáir, enda er þetta ekki mynd sem hefur hátt og fer mikið fyrir, og reynir aðeins meira á áhorfandann en hefðbundnar afþreyingarkvikmyndir.

those

Eins og leikstjórinn Peter Brunner kom inn á í Spurt & svarað eftir myndina þá er myndin byggð á ljóði Ingeborg Bachmann The Game is Over, en einnig er í myndinni lesið upp úr ljóði eftir Heinrick Heine. Það má því segja að undirtónninn í myndinni sé ljóðrænn og tilfinningalegur. Myndin er og á að vera, myndbirting tilfinninga eða upplifana – mynd af líðan aðalpersónanna.

Söguþráðurinn er frekar einfaldur,  Kati 15 ára kemur ásamt litlu systur sinni Piu til ömmu sinnar, en við fáum nær ekkert að vita meira um hennar bakgrunn. Kati þjáist af astma og amma hennar er hjartveik en báðar stríða enn fremur við aðra og andlegri þjáningu: þunglyndi. Saman takast þær á við sjúkdóminn og ástandið, í gegnum myndina í einskonar tímaleysi þar sem mörkin á milli raunveruleika, draumfara og hugaróra eru óskýr, og stundum er þetta næstum eins og heimildarmynd.

Til að kafa ofaní tilfinningalíf persónanna, einkum Kati, notar leikstjórinn ítrekað myndir af svínum, myndir af myrkri veru ( myndlíking fyrir þunglyndið ), slow-motion myndatöku, og endurtekningar í texta, eins og um það hve mikilvægt það er fyrir fólk að kveðjast og fleira. Myndlistarmaðurinn Francis Bacon kemur einnig við sögu, enda ríma málverk hans vel við efni myndarinnar.

Astminn og þungur andardráttur Kati gefa myndinni ákveðinn takt og þunga. Dauðinn er yfirvofandi og óttinn við að vera skilinn eftir ein er viðvarandi.

Those Who Fall Have Wings / Jeder der faellt hat Fluegel OFFICIAL TRAILER from Cataract Vision on Vimeo.